146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

skuldastaða heimilanna.

521. mál
[12:29]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrirspurnina og virði vel viðleitni hans til að reyna að fá hér skýr og klár svör. Ég get eiginlega ekki svarað þessu mikið einfaldara en ég gerði. Samkvæmt skýrslu fjármálaráðuneytisins eru þetta 72 milljarðar sem greiddir voru inn á höfuðstól húsnæðisskulda. Sem hlutfall, ef við horfum á húsnæðisskuldir 2014 námu skuldir heimilanna 1.250 milljörðum vegna íbúðalána á þeim tímapunkti. Þetta eru auðvitað alltaf breytilegar stærðir þar sem við sjáum ný lán koma inn, niðurgreiðslu lána og svo framvegis. En við getum bara gefið okkur að skuldir heimilanna væru þá 72 milljörðunum hærri en ella, ef þessi leiðrétting hefði ekki komið til. Það reiknast mér til að sé á bilinu 6–7% af þessum húsnæðisskuldum ef við horfum á 1.250 milljarða og 72 milljarða. Hv. þingmaður getur þá slegið það inn í vasareikni því til staðfestingar. En ætli það sé ekki af einhverri slíkri stærðargráðu sem húsnæðisskuldirnar væru þá ella hærri ef þetta úrræði hefði ekki komið til.

Þess ber að geta að á því tímabili sem svarið nær til, til og með 2015, er leiðréttingin ekki að fullu komin til framkvæmda. Þar af leiðandi gætir áhrifa hennar ekki að fullu leyti í þessum tölum. En við sjáum t.d. mjög skýrt að húsnæðisskuldir heimilanna lækka þarna um 35 milljarða, eða þar um bil á milli áranna 2014 og 2015. Má ætla að það sé að talsvert miklu leyti vegna leiðréttingarinnar. Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þingmanns og þakka góða umræðu.