146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimagisting.

500. mál
[12:35]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn um málefni sem er full þörf á að ræða. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast skráningu á og eftirlit með heimagistingu samkvæmt 38. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Frá áramótum hefur átt sér stað töluverð vinna við stefnumótun og innleiðingu eftirlitsins. Það hefur fyrst og fremst farið fram með því að móttaka og að bregðast við ábendingum um skráningarskylda starfsemi frá almennum borgurum og eftirlitsaðilum. Vinna stendur yfir við að innleiða virkt frumkvæðiseftirlit á landsvísu sem fer nær alfarið fram með rafrænum hætti.

Til að sinna umræddu verkefni er stefnt að því að kortleggja skammtímaleigu til ferðamanna á landinu öllu. Í því skyni mun sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu útbúa og viðhalda gagnasafni með upplýsingum um skráningar- og leyfisskylda starfsemi. Hann mun m.a. geyma upplýsingar um staðsetningu umræddrar starfsemi, nöfn rekstraraðila, netföng, fjölda gistirýma og fleira. Upplýsingar verða m.a. sóttar á bókunarvefjum á borð við, með leyfi forseta, þetta er víst allt á ensku: Airbnb, Home to Go, Booking, Bungalow, Rental Homes og rentinreykjavik.com. Líkt og hv. þingmaður kom inn á eru þetta fleiri aðilar en Airbnb sem við fjöllum hvað mest um.

Í mörgum tilvikum hafa þessar síður að geyma ónákvæmar og ófullkomnar eða villandi upplýsingar um staðsetningu og starfsemi eða rekstraraðila. Af þeim sökum kann að vera nauðsynlegt að afla frekari gagna, m.a. með könnun á markaðsefni og uppflettingum í opinberum og almennum gagnagrunnum og öðrum miðlum. Þá getur upplýsingaöflun kallað á lestur korta og yfirlitsmynda og auk þess verður unnið með upplýsingar sem berast frá almennum borgurum og eftirlitsaðilum.

Umrætt eftirlit á fyrst og fremst að eiga sér stað með rafrænum hætti. Þegar nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir um skammtímaleigu á landsvísu verður unnt að samkeyra gögnin við áður birtar upplýsingar um útgefin rekstrarleyfi og skráða heimagistingu. Þá verður skorað á aðila sem standa að óskráðum rekstri að skrá starfsemi sína í samræmi við ákvæði laga áður en gripið verður til beitingar stjórnvaldssekta. Í einhverjum tilvikum mun sýslumaður síðan fylgja málum eftir með stjórnvaldssektum. Þær geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr.

Í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er að finna lagaheimild til að miðla upplýsingum úr nýtingaryfirlitum til skattyfirvalda. Hv. þingmaður spyr hvaða fjármagni hafi verið varið til þessa eftirlits. Ekki liggur fyrir nákvæm sundurliðun kostnaðar vegna hinna nýju verkefna en samkvæmt kostnaðarmati frumvarpsins sem gert var á sínum tíma var árlegur kostnaður metinn 30 millj. kr.

Varðandi spurninguna um hvort ráðherra telji að nægilega vel sé búið að fyrirkomulagi heimagistingar í núverandi lögum er stutta svarið að ég tel svo ekki vera. Það var meginmarkmið hinna nýju laga að einfalda meint flækjustig leyfisferlisins samhliða eflingu eftirlits í því skyni að fá leyfis- og skráningarskylda starfsemi upp á yfirborðið. Í breytingunum felst meðal annars að einstaklingar, hjón eða sambúðarfólk, sem ætla að bjóða upp á heimagistingu samkvæmt nýrri skilgreiningu þurfi aðeins að skrá sig rafrænt hjá sýslumanni en þurfi ekki lengur að fá rekstrarleyfi útgefið og fara í gegnum umsóknarferli samkvæmt lögunum. Þrátt fyrir breytingu á flokkun gististaða samkvæmt nýju lögunum hafa breytingar enn ekki verið gerðar er varða starfsleyfisskyldu gististaða hjá heilbrigðisnefndum. Gististaðir, þar með talin heimagisting, eru þannig áfram starfsleyfisskyldir. Í mínum huga blasir við að þetta kemur í veg fyrir að markmið með breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, um einföldunina, nái fyllilega fram að ganga.

Eins og við vitum liggur nú fyrir þinginu frumvarp um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir frá umhverfisráðherra, m.a. til að bregðast við þessu. Ég vænti þess og mér skilst að það frumvarp verði að lögum á yfirstandandi þingi til að einfalda skráningarferli og stýra rekstraraðilum inn í hinn rafræna skráningarvettvang. Þetta er mjög mikilvægt.

Það þarf auðvitað að meta hvort ekki þurfi að efla eftirlit enn frekar, t.d. hjá sýslumanni. Mér finnst það satt að segja blasa við að ekki sé nægilegt afl þar. Við þurfum þá að gera eitthvað í því. Það þarf að leggja aukinn kraft í að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi, t.d. þeim sem bjóða upp á gistingu í gegnum Airbnb eða sambærilegar síður en hafa ekki skráð eignir sínar eins og lög gera ráð fyrir. Slíkt er auðvitað óþolandi. Það skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja. Ég held að það sé mikilvægt að við lögum til í þessu.

Varðandi síðustu spurninguna, hver þróunin hafi verið, hefur skráningum í heimagistingu fjölgað samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar breytinga á lögum. Nákvæmar tölur fékk ég ekki en samkvæmt vef sýslumanns hafa verið staðfestar 389 skráningar það sem af er árinu 2017.

Ég bind vonir við (Forseti hringir.) að frumvarp umhverfisráðherra verði að lögum. Einungis þannig er hægt að ná fram markmiðum með fyrri lögum sem hafa verið samþykkt.