146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimagisting.

500. mál
[12:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek undir með hv. þingmanni sem talaði á undan. Ég held að mikilvægt sé að skoða samspilið við sveitarfélögin. Þróunin sem við sjáum er að verið er að nýta íbúðir í íbúðahverfum í slíka heimagistingu, vafalítið á einhverjum stöðum í mun lengri tíma en ætlast er til samkvæmt lögum. Það hefur mjög mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn, ekki síst fyrir þá sem eru að reyna að brjóta sér leið inn á þennan erfiða húsnæðismarkað. Þess vegna held ég að við þurfum að huga að því líka hvaða tól og tæki sveitarstjórnir eiga að hafa til að geta haft stjórn á því hvernig íbúðaþróun verður innan þeirra marka. Við sjáum mjög víða í erlendum borgum að þar eru mjög ríkar heimildir til handa sveitarfélögum til að setja slíkar reglur.

Hæstv. ráðherra nefndi eftirlitsþáttinn sem ég spurði sérstaklega um. Það er auðvitað svo, en hún nefndi ábendingar frá almennum borgurum, að þessi mál eru eðlisólík því þegar um er að ræða atvinnustarfsemi. Það er annað, held ég, fyrir okkur flest að koma með ábendingar sem lúta að heimili fólks, nágranna okkar, en að gera athugasemdir við atvinnustarfsemi. Ég held að það sé mjög mikilvægt sem hæstv. ráðherra nefndi, þetta rafræna eftirlit, þ.e. samkeyrsla gagna af öllum þessum síðum með skráningargagnagrunni sýslumannsembættisins. Það hlýtur að vera framtíðin. Það er erfitt að leggja eftirlit í hendur fólks sem býr í næsta nágrenni og öll viljum við virða mörk einkalífs hver annars, eða vonandi flest.

Ég held að miklu skipti að eftirlitið verði í gegnum þessa skráningu. Hæstv. ráðherra nefndi frumvarp um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ég tel mig þekkja það að ætlunin er að ljúka þeim hluta þess sem lýtur að Airbnb. Það er mikilvægt ef það hefst. Hæstv. ráðherra nefndi að það yrði síðan að skoða þetta heildarumhverfi. Ég held að það sé mikilvægt (Forseti hringir.) sem hér hefur komið fram, að þáttur sveitarstjórna og sveitarfélaga í því verði skoðaður sérstaklega.