146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun um virðisaukaskattsbreytingu.

508. mál
[12:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Það var töluvert haft fyrir því þegar Stjórnstöð ferðamála var sett á laggirnar með miklum myndatökum og skrautsýningum og var látið að því liggja að þar með væri þessi málaflokkur kominn í verðuga umgjörð, þ.e. þarna horfðist þáverandi ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir, í augu við það að þetta væri ekki bara mál eins ráðherra heldur margra, að málaflokkurinn væri þeirrar gerðar að hann kæmi inn á verksvið margra ráðherra og margra ráðuneyta. Það var auðvitað full ástæða til að fagna þeirri nálgun, enda er það svo að því miður hefur Stjórnarráð Íslands einkennst af því að það eru býsna þykkir veggir milli ráðuneyta og full ástæða til að innleiða meiri samþættingu milli ráðherra og ráðuneyta þegar um er að ræða mál af þessu tagi.

Síðan gerist það í tíð núverandi ríkisstjórnar að það er látið vita af þeim áformum að til standi að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Þetta er raunar í tillögu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að ríkisfjármálaáætlun til fimm ára. Kemur síðan í ljós, nánast um leið og hæstv. ráðherra gerir grein fyrir þessum áformum, að um þau er ekki sátt í ríkisstjórnarflokkunum og mjög mikil ósátt í ferðaþjónustunni sjálfri, bæði um innihald tillögunnar að hluta til og ekki síður um aðdragandann, og var meira að segja látið að því liggja að þetta hefði verið gert algjörlega án samráðs.

Maður myndi halda að Stjórnstöð ferðamála væri akkúrat vettvangurinn til að fara með svona áform í gegnum og fjalla um þau þar við alla þá ráðherra sem koma að málaflokknum en ekki síður með geiranum sjálfum, þ.e. ferðaþjónustunni. Því spyr ég ráðherrann: Hver var aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun stjórnvalda um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu? Ef hún var einhver, þá hversu mikil? Ef hún var engin, þá hvers vegna?