146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun um virðisaukaskattsbreytingu.

508. mál
[12:49]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svarið er nokkuð skýrt: Aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun stjórnvalda um hækkun virðisaukaskatts var engin. Ég ætla að bæta við nokkrum orðum þrátt fyrir það. Með öðrum orðum kom málið aldrei til umræðu á fundum Stjórnstöðvar ferðamála áður en fjármálaáætlun var birt og kynnt. Forsvarsmönnum Samtaka ferðaþjónustunnar var hins vegar gerð grein fyrir því hvað til stæði stuttu — mjög stuttu — áður en þau áform um að færa hluta ferðaþjónustunnar í almennt virðisaukaskattsþrep voru kynnt opinberlega af forsætisráðherra. Eins og allir vita hafa samtökin verið afar gagnrýnin á ákvörðunina og m.a. gagnrýnt samráðsleysi við sig og greinina í aðdraganda ákvörðunarinnar, líkt og hv. þingmaður kom inn á.

Svo ég setji málið aðeins í samhengi er gott að rifja upp að þegar Stjórnstöð ferðamála var sett á laggirnar, tímabundið til ársins 2020, með samkomulagi stjórnvalda, sveitarfélaga og samtaka ferðaþjónustunnar haustið 2015 var hlutverk hennar hugsað til samhæfingar á aðgerðum og útfærslu leiða til að leggja þann trausta grunn sem kallað var eftir í ferðaþjónustu, sem hafði á undraskömmum tíma orðið ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Þetta skyldi gert í samvinnu við stjórnsýslu, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar vítt og breitt um landið, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila.

Að mínu mati hefur verkefnið tekist vel og umtalsverður árangur náðst á þeim skamma tíma sem í raun er liðinn frá því að stjórnstöðin var sett á fót.

Ég get vel skilið þá gagnrýni sem fram hefur komið um að greinin hefði viljað hafa aðkomu að þessari ákvörðun, en af hálfu stjórnvalda má segja að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að Stjórnstöð ferðamála hefði aðkomu að stefnumótun ríkisstjórnarinnar um eðlilega og áframhaldandi þróun og einföldun skattkerfisins.

Það er rétt að halda því til haga að til viðbótar við fyrirhugaða færslu á helstu flokkum ferðaþjónustu í almennt þrep virðisaukaskatts stendur til að lækka almenna þrepið, sem kemur íslenskum neytendum mjög til góða og er til þess fallið að lækka verðlag í landinu.

Rétt er að árétta að ákvörðun um þetta mál verður ekki tekin af Alþingi fyrr en með tekjufrumvarpi fjárlaga næsta vetur. Hér er um að ræða eina af forsendunum í fjármálaáætlun sem er til umfjöllunar hér á Alþingi. Málið fær sína þinglegu meðferð, hefur fengið umsagnir frá fjölmörgum aðilum, ekki síst aðilum í ferðaþjónustu, og sem kunnugt er hefur fjárlaganefnd komið á framfæri ýmsum sjónarmiðum sem ríkisstjórnin tekur til athugunar.

Þetta er hinn eðlilegi gangur og að sjálfsögðu verða þessi sjónarmið tekin til athugunar.

En svo ég árétti svar við spurningunni var aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að aðkomu stjórnvalda um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu engin. Það kom ekki til umræðu á fundum stjórnstöðvarinnar. Ég skil vel gagnrýni á skort á samráði. Eins og ég segi er þetta ein forsendna fjármálaáætlunar og öll útfærsla er eftir. Þetta mál hefur verið til meðferðar í þinginu og samtökin og aðrir hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Fjárlaganefnd hefur síðan beint því til ríkisstjórnar að taka þetta til nánari skoðunar og við gerum það að sjálfsögðu. Ég læt þetta duga.