146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun um virðisaukaskattsbreytingu.

508. mál
[12:56]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Rétt varðandi spurningu hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar um verðlag. Það er erfitt fyrir mig að leggja dóm á það en auðvitað hef ég séð og heyrt um ýmis atriði hvað þetta varðar. Ferðaþjónustan verður að hafa í huga að verð og gæði verða að fara saman. Ef við ætlum að byggja upp ferðaþjónustu til framtíðar sem á að vera sjálfbær skiptir máli að hugað sé að því.

Hvað varðar hvort Stjórnstöð ferðamála sé til einhvers þá finnst mér blasa við að svo sé. Ég hef enga mynd tekið af Stjórnstöð ferðamála né öðrum viðburðum sem við höfum verið á. Við höldum vinnufundi og tökum ákvarðanir. Ég tók ákvörðun um að það væri fundur fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Þeir fundir eru ákvarðana- og vinnufundir. Það hefur margt áunnist þar þrátt fyrir þetta allt saman.

Varðandi það hvort ég sjái fyrir mér aðrar leiðir til að uppfylla það sem fjármálaáætlun þarf að uppfylla, eins og það sem vaskurinn ætti annars að skila, þá held ég að af þessari ákvörðun verði á endanum. Ég vinn a.m.k. samkvæmt því. Eins og ég segi beindi meiri hluti fjárlaganefndar ákveðnum atriðum til ríkisstjórnarinnar sem við skoðum. Það að þessu seinki til 2019 finnst mér bara gott. Það er ekki mjög heppileg tímasetning að taka inn í svona mitt tímabil breytingu sem síðan lækkar nokkrum mánuðum síðar. Ef forsendur fjárlaga leyfa það finnst mér jákvætt að við gerum það. Aðrar útfærslur og mögulegar mótvægisaðgerðir fyrir þau svæði sem þola verr þessa ákvörðun eru líka í vinnslu.