146. löggjafarþing — 74. fundur,  29. maí 2017.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það skal viðurkennt að þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð í janúar sl. eftir langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður var það dálítið eins og kvöld á barnum þar sem menn hafa kannski vakað heldur lengi í von um enn meiri skemmtun seinna. En svo fóru ríkisstjórnarflokkarnir saman heim í eftirpartí sem hefur verið í ætt við önnur slík. Þegar partíið loksins hefst hefur þreytan náð yfirhöndinni, enginn man lengur væntingarnar frá því fyrr um kvöldið, fólk syngur, kannski þreytulega, ekki í takti, sumir eru svolítið fúlir með að hafa lent í þessu partíi en ekki einhverju öðru partíi. Og húsráðandinn er ekki heima, a.m.k. ekki í kvöld.

Er þetta nú sanngjarnt? hugsa einhverjir, a.m.k. hæstv. ráðherrar. En við verðum að meta þetta fyrsta misseri ríkisstjórnarinnar af verkum hennar og líka orðum forsvarsmanna hennar. Það voru stór mál á dagskrá fyrir kosningar. Viðreisn kom fram sem nýtt afl sem talaði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið, róttækum breytingum á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Einhvern veginn tókst húsráðandanum að tala Viðreisnarfólk inn á að geyma sitt stærsta mál þangað til seinna — líklega þangað til tími verður kominn til að hringja á leigubíl og fara heim.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talar af alkunnugum töffaraskap sem við kunnum mörg að meta en hefur enn ekki náð neinu fram nema því að færa skrifstofu sína vítt og breitt um landið sem er mikið tekið hjá nýrri stjórnmálaflokkum — hér áður fyrr hétu þetta heimsóknir.

Og umhverfisráðherra Bjartrar framtíðar talar djarfmannlega um loftslagsmál. Ég er sammála flestu af því sem hún segir um þau mál en enn höfum við ekkert í höndum — annað en blaðamannafund þar sem hálf ríkisstjórnin tilkynnti að hún hygðist vinna saman að aðgerðum um loftslagsmál — og við sem héldum að þau væru búin að segja það í stjórnarsáttmálanum. Nema að núna er það ekki öll ríkisstjórnin sem vinnur saman að loftslagsmálum heldur aðeins hálf.

Loftslagsmál þola enga bið, þar þarf skýra sýn um kolefnishlutlaust Ísland.

Gjaldmiðilsmálin sem voru aðalmál Viðreisnar og formanns hennar voru skyndilega færð yfir í hendur húsráðanda, enn og aftur, sem færði Seðlabankann og endurskoðun peningastefnunnar yfir til sín, skrifaði í erindisbréfið til nefndarinnar sem á að endurskoða þá stefnu að öll yrði sú endurskoðun að vera innan ramma krónunnar, svolítið eins og maðurinn sem alltaf setur leiðinlegt lag á fóninn til að ganga frá eftirpartíinu. Og hvað gerir maður þá annað en að draga fram djörfustu flíkina sem maður finnur í fataskápnum og bjóða sig fram í næsta lausa embætti, í þessu tilviki embætti formanns Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík? Verst að hæstv. fjármálaráðherra sem leggur fram meiri niðurskurðaráætlun en við höfum áður séð gagnvart framhaldsskólum skyldi ekki átta sig á því hversu óviðeigandi þetta framboð var fyrr en framboðsfrestur var útrunninn.

Væntingarnar voru líklega ekki miklar en af meira en 100 málum á málalista ríkisstjórnarinnar eru heimturnar ekki miklar heldur. Innleiðingar á EES-málum hafa verið áberandi í störfum þingsins og fá stórpólitísk mál hafa komið til þingsins sjálfs fyrir utan fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Félags- og jafnréttismálaráðherrann byrjaði reyndar á því að kynna jafnlaunavottun í Ameríku. Hann átti sínar 15 mínútur af heimsfrægð og lét taka víkingaklappið fyrir sig. Talsvert seinna lagði svo ráðherrann málið fram í þinginu og hefur svo þrýst mjög á um að það verði klárað — enda væri annað frekar vandræðalegt — og það verður tekið til 2. umr. í þinginu ásamt mjög nauðsynlegum lágmarkslagfæringum því að þetta grundvallarmál Viðreisnar var undarlega illa undirbúið þegar það kom í þingið.

Ýmis mjög góð mál komu hins vegar seint inn í þingið sem útskýrir af hverju þurfti að fresta frekari vinnu við þau til haustsins. Má þar nefna ný lög um málefni fatlaðra og innleiðingu tilskipunar um keðjuábyrgð sem gengur reyndar mun skemmra en við Vinstri græn teljum rétt og eðlilegt. Nýr forseti þingsins hefur hins vegar með verkum sínum sýnt að ekki dugir að vera of seinn. Hún hefur ákveðið að starfsáætlun þingsins verði fylgt og setur þar með mikilvægt fordæmi til næstu ára.

Stærsta mál ríkisstjórnarinnar hefur hins vegar verið fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Og svo ég skilji ekki alveg við hina ágætu myndlíkingu frá í upphafi hefur umræðan um hana einmitt verið eins og partí þar sem reykingamennirnir norpa súrir úti á svölum, einhverjir eru inni í stofu að dansa við sænskt teknó og enn aðrir eru á trúnó inni í eldhúsi. Í þessu tilviki segir einn: Áætlunin? Þetta er nú bara lærdómsferli, þetta snýst ekki um niðurstöðu því að það á allt eftir að breytast. Annar segir: Áætlunin? Hún stendur, en henni verður ekki breytt nema í því sem ég er sammála. Og sá þriðji segir: Áætluninni verður ekki breytt.

Þetta lítur ekki gæfulega út, frú forseti.

Auðvitað er kannski ódýrt að henda gaman að því að enginn sé sammála í ríkisstjórninni. Við skulum vera sanngjörn, það er ekki eins og þeir sjö flokkar sem nú skipa Alþingi Íslendinga séu endilega sammála um allt en kannski er það einmitt vegna stóru átakalínanna sem eru að verða æ skýrari í íslenskum stjórnmálum og birtast svo ljóslega í fjármálaáætluninni. Þó að deilt sé um fjármálaáætlunina í partíinu virðast gestirnir sammála um eitt og það er sú mikla hægri stefna sem áætlunin boðar. Því að hverjar eru stóru línurnar í fjármálaáætluninni? Jú, hún er römmuð inn í strangar fjármálareglur sem eiga rætur að rekja til nýfrjálshyggju þar sem öll áherslan er á lækkandi hlutfall samneyslunnar. Það þýðir á mannamáli að draga úr þjónustu við almenning án sýnilegra markmiða eða ávinnings fyrir okkur sem myndum samfélagið á Íslandi.

Þingmenn og ráðherrar meiri hlutans tala um að fleiri krónur renni til ýmissa málaflokka en þegar hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu er skoðað er í þessari áætlun gert ráð fyrir að hún dragist saman. Hún er fjarri því að mæta þeim væntingum sem voru gefnar fyrir síðustu kosningar, ekki bara af forsvarsmönnum þeirra sem nú skipa minni hlutann á Alþingi heldur ekki síður af forsvarsmönnum meirihlutaflokkana á Alþingi. Það kemur ekki á óvart þar sem áætlunin boðar enn frekari skattalækkanir ofan á allar þær aðgerðir sem síðasta ríkisstjórn réðst í til að veikja tekjustofna ríkisins, allt í anda sömu frjálshyggjukredduhugsunarinnar sem ber mikla ábyrgð á vaxandi ójöfnuði um heim allan.

Hvað þyrfti að gera? Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Kannski vill einhver hafa það þannig. Kannski vill ríkisstjórnin hafa það þannig. Ef við viljum það ekki þarf að endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur, skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum og Ísland þyrfti að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni af sanngirni til þjóðarinnar.

Við vitum alveg um hvað síðustu kosningar snerust. Þær snerust um endurreisn velferðarkerfisins eftir kreppu undanfarinna ára. Það er okkar sameiginlega verkefni, að reka hér öflugt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar þurfa ekki að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á veikindi vegna of mikillar greiðsluþátttöku. Því miður gengur fjármálaáætlun út á að þetta greiðsluþak verður hærra en var boðað í því frumvarpi sem var samþykkt á sínum tíma á Alþingi, heilbrigðiskerfi sem er félagslega rekið því að við þurfum ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi. Fólkið í landinu vill ekki slíkt kerfi, ítrekað hefur það komið fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna vill félagslega rekið heilbrigðiskerfi, vel fjármagnað heilbrigðiskerfi. Um þetta fengu stjórnmálaflokkarnir allir skýr skilaboð fyrir kosningar, t.d. með undirskriftum 86.500 Íslendinga.

Við eigum að standa undir þeim væntingum að efla menntakerfið okkar, tryggja að það geti tekist á við þær miklu breytingar sem eru fram undan og gera öllum kleift að sækja sér menntun óháð aldri. Við eigum að fjölga nemendum en ekki fækka þeim eins og stefna ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir sem er því miður algjörlega metnaðarlaus, nánast eins og menntamálin hafi gleymst á leiðinni í partíið. Það eina sem virðist skipta máli er að stytta tímann sem tekur að veita menntunina en ekki menntunin sjálf. Auðvitað hljótum við að spyrja: Hvað hefur breyst frá síðustu samþykktu fjármálaáætlun þar sem menntamálaráðherrann var líka Sjálfstæðismaður, þar sem gert var ráð fyrir að þeir fjármunir sem spöruðust við styttingu námsins skiluðu sér inn í kerfið? En frá síðustu samþykktu áætlun eru fjármunir til framhaldsskóla skertir svo um munar, um 1.400 milljónir miðað við árið 2021. Hvað hefur breyst síðan í ágúst í fyrra? Er það tilkoma nýrra meðreiðarsveina Sjálfstæðisflokksins eða gafst menntamálaráðherrann bara upp?

Og framfærsla þeirra hópa sem veikast standa í samfélaginu? Ekki var nú lítið rætt um hana fyrir síðustu kosningar. Við eigum að tryggja öllum sem búa í þessu landi viðunandi og mannsæmandi framfærslu, hvort sem við tölum um laun öryrkja og aldraðra, lágmarkslaun eða atvinnuleysisbætur. Það er algjörlega óviðunandi að á tímum þar sem um fátt annað er talað en efnahagslegan uppgang sitji stórir hópar eftir, langt undir þeim viðmiðum sem stjórnvöld telja eðlileg til að standa undir framfærslu. Miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hefur Öryrkjabandalag Íslands lagt á það mat að öryrkjar muni fá 288.000 kr., heilar, í mánaðarlaun árið 2022. Á ég að trúa því að þetta sé sýn þessarar ríkisstjórnar á kjör þessa hóps? Og ekki hyggst ríkisstjórnin bæta kjör þessara hópa með auknum húsnæðisstuðningi sem skerðist ár frá ári í fjármálaáætluninni.

Eftirpartí eru eðli máls samkvæmt þreytt þegar þau hefjast. Og þetta sem nú stendur yfir hófst mæðulega og ekki mun það batna, aðallega vegna þess að sameiningarþátturinn, límið sem heldur ríkisstjórninni saman, er sú hugmynd að árangur verði mældur í því ef samneyslan minnkar og minnkar og minnkar.

Það er aðkallandi að við breytum því hvernig við hugsum um samfélag. Samfélag er ekki bara bókhald sem þarf að stemma. Samfélag er undirstaða þeirrar velferðar sem við viljum búa fólkinu okkar. Samfélag er sáttmáli, grundvallaður á réttlæti og sanngirni þannig að þeir sem hafa mest leggi hlutfallslega meira af mörkum en þeir sem hafa minna á milli handa. Samfélag snýst um að tryggja öllum mannsæmandi kjör, tryggja öllum jöfn tækifæri. Baráttunni fyrir réttlátu samfélagi lýkur aldrei, en við getum gert svo miklu betur. — Gleðilegt sumar.