146. löggjafarþing — 74. fundur,  29. maí 2017.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæra Alþingi. Þið sem heima sitjið. Við nálgumst nú lok þingvetrar sem hefur verið einn sá óvenjulegasti í seinni tíð. Niðurstöður kosninga í október voru óljósar. Upp úr kössunum bárust miklar vendingar í fylgi. Sögulegur fjöldi sjö flokka hlaut kosningu. Niðurstöðurnar skiluðu engri skýrri mynd af sjálfsögðum meiri hluta eins og við eigum að venjast, enda tók við langt tímabil stjórnarmyndunarviðræðna fram og til baka þangað til ný ríkisstjórn var loks mynduð í upphafi janúar. Í millitíðinni hafði Alþingi samþykkt fjárlög fyrir árið 2017 án skýrs meiri hluta.

Við í Bjartri framtíð hlutum ágæta kosningu í október miðað við nýjan flokk sem var að fara í gegnum sínar aðrar kosningar og rysjótt gengi í skoðanakönnunum. Við áttum kannski ekki von á því fyrir fram, en það kom í ljós að við áttum lykilhlutverki að gegna við að mynda meiri hluta fyrir ríkisstjórn. Kannski eðlileg staða fyrir frjálslyndan miðjuflokk annars staðar, en splunkuný staða fyrir Bjarta framtíð.

Við ákváðum að taka þessa ábyrgð alvarlega. Við tókum þátt í formlegum viðræðum við nær alla flokka á þingi, enda trúum við á það að við höfum verið kosin til þess að hafa áhrif, að við höfum verið kosin til þess að axla ábyrgð. Við í Bjartri framtíð erum ánægð með þær áherslur sem koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Við gerum okkur ljósa grein fyrir því að við erum að starfa með ólíkum flokkum, að við ráðum ekki öllu ein, að við þurfum að gera málamiðlanir hægri/vinstri, bæði milli ríkisstjórnarflokka, en líka við aðra þingmenn og flokka á Alþingi. Samstarf ríkisstjórnarinnar hefur gengið vel og það sama á almennt við um samstarf á þinginu.

Það eru mörg þjóðþrifamál sem lítill ágreiningur er um í íslenskum stjórnmálum. Alþingi hefur sýnt það trekk í trekk síðastliðinn vetur að við berum gæfu til þess að geta hafið okkur yfir flokkadrætti í þágu góðra mála. Það er gott og það er alls ekki sjálfsagt. Þrátt fyrir það sem stundum heyrist er íslenskum stjórnmálum ekki alls varnað. Við eigum að vera stolt af þessu. Við eigum að nýta þetta sem hvatningu til þess að gera betur. Það er oft sagt að það þurfi tvo í tangó. Á þessu þingi þarf fleiri en það til að mynda meiri hluta og dansa. Það er vissulega flækjustig en það er vel þess virði þegar vel tekst til.

Á dögunum sat ég árlegt þing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO í fyrsta skipti sem heilbrigðisráðherra Íslands. Það var stór stund og merkileg upplifun að hluta til, því það er langt í frá sjálfsagt að vera fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi en ekki síður er merkilegt að spegla sig í alþjóðlegu samhengi. Íslenska sendinefndin sat við hlið Indverja, næstfjölmennustu þjóðar heims með allar sínar áskoranir. Fyrir framan okkur sátu fulltrúar hinnar lokuðu og dularfullu Norður-Kóreu og lýðveldisins Kongó, sem hefur undanfarið glímt við enn einn ebólu-faraldurinn með góðum árangri í þetta skiptið.

Það var fróðlegt að bera saman bækur okkar við kollega nær og fjær. Þótt við glímum við stórar og alvarlegar áskoranir hér á Íslandi bæði í heilbrigðismálum sem og í öðru, þá er ljóst að okkar staða er að mörgu leyti góð, vandamálin oft yfirstíganleg í samhenginu og tiltöluleg samstaða eða a.m.k. nokkur friður um ansi mörg grundvallarmál.

Eftir að hafa heyrt sjónarmið fulltrúa 190 ríkja varð mér enn og aftur ljóst að enginn er eyland í heilbrigðismálum, faraldrar virða ekki landamæri, það gera loftslagsmálin heldur ekki. Í æ ríkari mæli gera efnahagsmál og aðrar hliðar mannlífsins það ekki heldur. Ríkt og friðsælt land eins og Ísland ber ekki bara ábyrgð gagnvart sjálfu sér. Okkar frjálslynda, sköpunarglaða og jafnréttissinnaða þjóðfélag býr yfir miklum styrk og í mjög mörgu erum við fyrirmynd annarra. Við eigum að byggja á því sem er gott og gera betur. Í þessu felst heilmikil ábyrgð. Björt framtíð vill bera ábyrgð. Við erum ekki í keppni hver hefur réttast fyrir sér. Við erum ekki í stjórnmálum til þess að keppast um vinsældir eða völd í þágu sérhagsmuna. Þess vegna sóttumst við eftir því að vinna að heilbrigðismálum og umhverfismálum og erum stolt af því að stýra þeim ráðuneytum.

Heilbrigðismálin eru augljóslega sá málaflokkur sem íslenskur almenningur ber helst fyrir brjósti enda augljóst að þar er verk að vinna. Ég hef lagt áherslu á að vinna heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustuna þvert á stofnanir og þjónustustigin. Áherslan á mönnun heilbrigðisstétta, eflingu heilsugæslunnar, þróun fjarheilbrigðisþjónustu og geðheilbrigðismálin eru mikilvæg. Lýðheilsa fléttast inn í ólík málefni. Hún kemur við skipulagsmál, matvælaframleiðslu, umhverfismál, almenningssamgöngur, skóla o.s.frv.

Það er ekki á annað hallað þótt bygging nýs Landspítala sé sett á oddinn. Ríkisstjórnin hefur einsett sér að ljúka byggingu fyrstu áfanga á næstu árum. Það verður eitthvert mesta grettistak í íslenskum heilbrigðismálum í marga áratugi. Það er verk að vinna og gott að vita af breiðum stuðningi við þessa uppbyggingu.

Umhverfismálin eru mál framtíðarinnar. Það sem við gerum eða trössum í dag mun gagnast eða koma í hausinn á komandi kynslóðum. Loftslagsmálin eru í deiglunni vegna mikilvægis en líka vegna þess að þau þarf að vinna á mjög breiðum grundvelli. Þau snerta marga ef ekki flesta málaflokka. Umhverfismálin eru risastór og þau eru líka smá. Það er ánægjulegt að sjá fleiri og fleiri setja þau á oddinn þvert á aldur, búsetu og stjórnmálaflokka. Umhverfismálin og íslensk náttúra eru enda ekki eign eða séráhugamál neins eins eða neinna einna. Það er leitun að skýrari almannahag þegar við horfum á málaflokkana.

Það er stundum haft á orði að stjórnmálamenn hljóti völd og ríkisstjórnir sitji að völdum. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að völd og ábyrgð er að mörgu leyti tvær hliðar á sama peninga. Völd eru til lítils eins og sér. Völd eru fyrst og fremst tæki til þess að axla ábyrgð.

Við kjörnir fulltrúar erum í þjónustustarfi fyrir almenning. Vissulega erum við kosin til að fylgja ákveðinni stefnu, til að framfylgja okkar áherslum. En gleymum því aldrei að okkar hlutverk er að þjóna almannahagsmunum, líka hagsmunum þeirra sem ekki kusu okkur. Þetta á bæði við okkur sem stöndum að ríkisstjórninni eins og þingmenn annarra flokka. Við vorum kosin hingað á Alþingi Íslendinga til ábyrgðar, kosin til að gera gagn og koma í veg fyrir ógagn.

Ég er bjartsýnn maður. Við vinnum oft vel hérna á þinginu. Við vinnum saman að hlutunum. Við getum gert enn þá meira af því. Það stendur ekki á mér. Ég hlakka bókstaflega til að vinna meira með ykkur. Gangi okkur öllum vel í að láta gott af okkur leiða. — Góðar stundir og góða ferð.