146. löggjafarþing — 74. fundur,  29. maí 2017.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:00]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Hvert stefnum við nú? Hvert er ferðinni heitið? Ekki stóð á innihaldslýsingu ríkisstjórnarinnar að örlagafen einkavæðingarinnar væri kappsmál. Raunin er nú samt sú að af miklum mætti er stefnt að því að fá forgang á heilbrigðiskerfið á grundvelli auðs og valds. Sama auðvald mænir síðan á Leifsstöð og sleikir út um. Þetta er ekki það sem stóð á pakkanum sem ríkisstjórnarflokkarnir buðu með miklum tilþrifum í nýliðnum kosningum. Almannahagsmunir framar sérhagsmunum var mantra bitlaus og snauð. Formaður Viðreisnar ætlar engum að gefa brauð. Með fjármunina í pyngju og glott í frænda stað, hann Benedikt Jóhannesson ætti að hugleiða það.

Þó að áhöfn ríkisstjórnarinnar sé ný að hluta eru vinnubrögðin gömul. Háttar þannig til sjós að kallinn í brúnni er sá sem leggur línurnar. Í stjórn sem nýlega hefur náð sér eftir skipbrot er furðulegt að litlu sem engu eigi að breyta í stjórnarháttum. Það er þó eðlismunur á stjórn á sjó og svo hér á landi. Til sjós stjórnar kallinn í brúnni bara einu sinni. Hvert stefnum við? Hvert er ferðinni heitið?

Virðulegi forseti. Verkamenn fortíðarinnar bíða nú á göngum sjúkrastofnana vegna þess að ekki finnst fjármagn til þess að reisa þeim heimili. Öryrkjum nútímans er svo naumt skammtað af köku allsnægta að vonlaust er fyrir þá að finna sér þak yfir höfuðið. Fullfrísku ungu fólki finnst það ekki að finna sér verustað. Stefnan sem Alþingi hefur markað er séreignarstefna. Meginforsendur þeirrar stefnu eru brostnar og það bókfært og skjalfest fyrir allra augum. En hvar er viðbragðið? Hvar er framtíðin, virðulegi forseti?

Píratar boðuðu nýja sýn, nýja stefnu, nýja ferð. Við viljum að þjóðin fái að ráða för. Við viljum aftengja auðvaldið frá Alþingi. Við viljum færa stjórn landsins inn í baðstofu almennings öllum til heilla. Við ætlum að veita þjóðinni aðgengi að auðlindinni. Við ætlum að innheimta fyrir þær fullt gjald. Við ætlum að fá nýtt heilbrigðiskerfi, gjaldfrjálst og fjármagnað.

Ég hóf feril minn í stjórnmálum til þess að berjast fyrir réttlátu fiskveiðistjórnarkerfi. Eitt af því sem ég hef lagt höfuðáherslu á er að fá auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég vil færa eignarhaldið til fólksins, til þjóðarinnar. Allt er þetta í nýrri stjórnarskrá, stjórnarskrá fólksins sem stjórnmálamenn stálu, hrifsuðu frá þér, kæri Íslendingur.

Góðir Íslendingar. Þjóðarskútunni okkar er stýrt af sama fólkinu með sömu glæfralegu stefnu og sigldi henni í strand fyrir hartnær áratug síðan. Þau hafa ekkert lært. Blinduð af hvalreka ferðamennskunnar og sömu gömlu vinnubrögðunum þar sem þjóðin fær ekki að vera með. En sagan segir okkur að það sem fer upp kemur að lokum niður. Því ætla ég að ljúka ræðu minni á ljóði eftir Stein Steinar, með leyfi forseta:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði

er gjarna sett að veði.)

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið.