146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:11]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga orðastað við hv. formann atvinnuveganefndar, Pál Magnússon. Í gær átti sér stað umræða um byggðamál þar sem hæstv. ráðherra Jón Gunnarsson fór aðeins yfir sína sýn á þau mál, hvað hefði verið gert síðustu árin en ekki síst hvað væri áformað á næstunni. Eitt af því sem bar á góma var uppbygging raforkukerfis. Það er engum blöðum um það að fletta að víða er pottur brotinn í þeim efnum og víða um hinar dreifðu byggðir landsins sem þarf að gera gangskör í þeim efnum. Hæstv. ráðherra tengdi þá stöðu við rammaáætlun með beinum hætti. Í hans huga hafði vinstri stjórnin þegar hún var við völd 2009–2013, eins og hann komst að orði, með leyfi forseta, „frumkvæði að því að leggja stein í götu rammaáætlunar og skynsamlegrar nýtingar orkuauðlinda okkar“ og því væri staðan eins og hún er í dag. Þetta væru afleiðingar þess.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeirri sýn ráðherra að staða flutningskerfis raforku sé á einhvern hátt því um að kenna að farið var eftir rammaáætlun á sínum tíma. Ég er ekki viss um að ég og hæstv. ráðherra höfum sömu sýn á það hvað er skynsamleg nýting orkuauðlinda, en ég hef af því töluverðar áhyggjur ef uppbygging raforkukerfis verði beintengd þeim hugmyndum sem ráðherra hefur um skynsamlega nýtingu orkuauðlinda. Eitt er að dreifa raforku sem er jafnvel nú þegar fyrir hendi, annað að taka næstu skref í að framleiða meiri raforku. Mig langaði að heyra hugleiðingar hv. þingmanns um þetta. Erum við að fara að bíða eftir því að rammaáætlun verði afgreidd og kláruð áður en við getum farið í uppbyggingu á flutningskerfi raforku?