146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:25]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar segir m.a. þetta um innflytjendur og útlendingamál, með leyfi forseta:

„Í fjölmenningarsamfélagi felst mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga. … Vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum. … Hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, samanber skyldur í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna …“

Þrátt fyrir þessi fögru orð og fyrirheit eru dæmin fjölmörg um fólk og fjölskyldur sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd en er synjað og vísað frá landinu. Það er mín skoðun að við þingmenn eigum ekki að beita okkur fyrir lausn einstakra mála einstaklinga heldur fyrir lausn málaflokksins alls. Ég get þó ekki orða bundist hér í ræðustól Alþingis í dag yfir umsókn 16 ára drengs frá Marokkó sem kom hingað til Íslands í desember á síðasta ári en hefur verið synjað um hæli. Drengurinn er fylgdarlaust barn samkvæmt skilgreiningu en er hér ásamt eldri bróður sínum sem er 21 árs og vill koma honum í öruggt skjól. Drengurinn er samkynhneigður og í tvöfalt veikri stöðu sem fylgdarlaust barn annars vegar og vegna kynhneigðar sinnar hins vegar.

Hér sem endranær vísa íslensk stjórnvöld í Dyflinnarreglugerðina sem grundvöll þess að senda bræðurna frá Íslandi í stað þess að afgreiða mál þeirra hér. Eins og ítrekað hefur komið fram er ekkert í þeirri reglugerð sem hvetur til þess að Ísland sendi frá sér flóttafólk, hvað þá fylgdarlaus börn. Því má frekar segja að hér sé um stefnu og afstöðu ríkisstjórnarinnar að ræða frekar en lagalegar skyldur hennar.

Íslenska ríkisstjórnin þarf að svara því hver stefna hennar er (Forseti hringir.) í málefnum fylgdarlausra barna og hvort hún ætli að standa við fögur fyrirheit sín um að taka á móti fleiri flóttamönnum og hvort hún ætli að hafa mannúðarsjónarmiðin að leiðarljósi (Forseti hringir.) við afgreiðslu umsókna fólks um alþjóðlega vernd. Annað er ómannúðlegt.