146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:29]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér fram fyrir hönd nefndarmanna í hv. velferðarnefnd til að deila sameiginlegri bókun sem var lögð fram í þverpólitískri sátt í gær:

Ríkið hefur mikla og sérstaka skyldu til samráðs við fatlað fólk og samtök þess samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti sl. haust og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja.

Í 4. gr. samningsins er sú skylda orðuð svo að þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samninginn og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skuli þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Með vísan til þessa og í ljósi óska, ábendinga og athugasemda sem fram hafa komið frá sumum samtökum sem vinna að hagsmuna- og réttindamálum fatlaðs fólks varðandi efni og meðferð frumvarpsins og með tilliti til þess að velferðarnefnd hefur skamman tíma til afgreiðslu frumvarpsins á þessu þingi er lagt til að afgreiðslu þess verði frestað.

Gert er ráð fyrir að velferðarnefnd nýti tíma milli þinga til að fjalla um frumvarpið og umsagnir í nánu samstarfi með ráðuneytinu um að taka það til afgreiðslu strax við upphaf næsta þings. Gangi það eftir getur frumvarpið öðlast gildi 1. janúar eins og kveðið er á um í því.

Í lok bókunar sem hægt er að sjá í fundargerð nefndarinnar var lögð fram tillaga til velferðarráðuneytisins um að ákvæði um notendastýrða persónulega aðstoð í 11. gr. og bráðabirgðaákvæði I í frumvarpinu verði felld inn í núgildandi lög um málefni fatlaðs fólks. Gert er ráð fyrir að þær greinar verði síðan í lögum um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir þegar frumvarpið hefur verið afgreitt.