146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

svör við fyrirspurnum.

[10:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er með eilítið forrit, sem ég setti í gang þegar hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé fór upp í pontu, sem telur einmitt þá daga sem hafa liðið þangað til svör berast. Frá því að ég skoðaði það síðast hefur aldeilis verið bætt í. Meðalsvartími fyrirspurna eru 18 dagar. En meðalfyrirspurnatími þeirra fyrirspurna sem liggja inni og hefur ekki enn verið svarað er 30. Ef öllum þeim fyrirspurnum verður svarað þá óhjákvæmilega fer meðaltíminn dálítið upp. En til að halda þessu til haga: Núverandi meðalsvartími er 18 dagar, sem er mjög gott og það besta sem ég hef séð í mörg þing, það sem ég hef talið. Það er hins vegar ekki mjög gott að skilja þær fyrirspurnir eftir sem er ósvarað. Ef þeim er bara kippt út lítur meðaltalið voðalega vel út. Það er mjög óeðlilegt að það sé verið að velja hvaða fyrirspurnir eigi bara að deyja og hvaða fyrirspurnum sé fljótsvarað og laga þannig meðaltalið.