146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég hef verið erlendis við embættisstörf síðustu daga umræðunnar um fjármálaáætlun, en hef þó náð að fylgjast með í gegnum alnetið og í beinum útsendingum og fylgst með ræðum þingmanna og finnst ástæða til þess að þakka fyrir góða og málefnalega umræðu. Það er mjög ánægjulegt að upplifa það núna í annað skipti sem lögð er fram fimm ára fjármálaáætlun að þingið hefur að einhverju leyti áttað sig, ef það má orða það svo, á því hvað þetta er mikilvægur póstur í fjárlagagerðinni og uppsetningu fjárlaga fyrir ríkið. Segja má að fyrsta fjármálaáætlunin hafi runnið dálítið hljóðlaust í gegnum Alþingi. Þingið hefur kannski ekki áttað sig á því hvað verið væri að setja mikla stefnumörkun með henni, en í ár er öldin önnur.

Ég hef aðeins áhyggjur af því hvort við séum að einhverju leyti að oftúlka fjármálaáætlunina, því að auðvitað er hún áætlun um málaflokka og ramma málefnasviða. Þetta eru auðvitað ekki fullkláruð fjárlög. Sú vinna er eftir þó að hún byggi auðvitað á því sem lagt er fram í fjármálaáætlun. Það er kannski það sem er svo sögulegt. Við erum að móta okkur í ferli.

Þegar hv. fjárlaganefnd heimsótti fjárlaganefnd sænska þingsins, sem var kannski aðalverklagsfyrirmyndin fyrir okkur, var okkur sagt að það tæki svona 10 ár að þróa þetta ferli og fínpússa það. Við Íslendingar erum nú vön að vilja gleypa hlutina hraðar en það, en við erum í ferli, eins og komið hefur fram í umræðu bæði hjá fulltrúum meiri hluta og minni hluta, og við viljum læra af ferlinu og fara eftir því áfram.

Mig langar aðeins til að nota þær mínútur sem ég hef hér til þess að ræða innihald fjármálaáætlunarinnar, þ.e. þá pólitísku stefnumörkun sem felst í henni. Stundum þegar maður hlustar á umræður á Alþingi og jafnvel víðar mætti halda að heimurinn skiptist í svart og hvítt, annaðhvort nýfrjálshyggju eða félagshyggju, gróðahyggju, almannahyggju eða hvað það er, en ég vil nú meina að heimurinn sé ekki svona svart/hvítur. Það sést alveg ágætlega á þessari fimm ára fjármálaáætlun. Hér er annars vegar stigið hægt til jarðar. Verið er að sýna aðhald í ríkisfjármálum. Verið er að auka aðhald. Verið er að vinna gegn þensluvekjandi áhrifum áætlunarinnar, en á sama tíma er verið að staðfesta stórkostlega útgjaldaaukningu, sem sést í fjárlögum fyrir þetta ár, 2017, og bæta allverulega í. Það á alveg sérstaklega við í velferðarmálunum, í heilbrigðismálum og velferðarmálum. Ég tel að hér sé komin fram fjármálaáætlun sem feti einmitt einstigið á milli — ja, eigum við að kalla það hins svarta og hvíta eða hvað? Þetta er fjármálaáætlun hófsemdar og ég kvitta glaður undir þá stefnumörkun sem varðar áherslu á velferðar- og heilbrigðismálin sérstaklega, þær áherslur sem sjást í fjármálaáætlun.

Það er alveg rétt að við erum, eins og við erum vön hér á Íslandi, í þessum endalausa ólgusjó uppsveiflna og niðursveiflna. Núna er okkar helsti vandi gríðarleg þensla, mikill þrýstingur, það er þrýstingur á framkvæmdaraðila, það er þrýstingur á gjaldeyrinn, það er þrýstingur á vinnumarkaði o.s.frv. Maður upplifir að stjórnvöld séu alltaf annaðhvort að berjast við að halda niður þrýstingnum um að of vel gangi, eða að reyna að bjarga málum þegar allt fer á verri veg.

Sú aðferðafræði að hugsa til lengri tíma, leggja fram stefnur og áætlun til fimm ára, leggja línur sem sýna hvert verið er að fara, er einmitt hugsuð til þess að hafa sveiflujafnandi áhrif. Þó að við séum ekki búin að fullkomna það ferli tel ég mjög mikilvægt að við séum að þróa málin, jafnvel þó að það sé ekki fullkomið. Þess vegna fagna ég því að fjármálaáætlun (Forseti hringir.) sé komin á þennan stað. Ég þakka kærlega fyrir mjög góðar og efnismiklar umræður um hana.