146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þær umræður sem hafa verið hér í þinginu um fjármálaáætlunina sem legið hefur fyrir frá því í lok mars.

Fjármálaáætlun samkvæmt lögum um opinber fjármál kemur nú fram í annað sinn. Í fyrra féll umfjöllun um áætlunina í skuggann af öðrum málum, auk þess sem afgreiðsla þá kann að hafa verið lituð af því að þá hafði þegar verið boðað til kosninga þegar hún var sett fram.

Það er eðlilegt að enn séu ýmsir hnökrar á framsetningu og ég er manna fyrstur til að viðurkenna að svo sé. Margvíslegar athugasemdir og ábendingar hafa komið fram í umræðum um fjármálaáætlun. Fjármálaráð skilaði ítarlegri skýrslu og jafnframt skiluðu fulltrúar í fjárlaganefnd viðamiklum álitum, meirihlutaáliti og fjórum minnihlutaálitum. Nefndir þingsins fjölluðu um áætlunina og skiluðu álitum, auk þess sem fjölmargir þingmenn hafa rætt hana í þingsal.

Ég tel afar mikilvægt að við nýtum okkur reynsluna frá því í ár til að bæta áætlun næsta ár. Vinnulag við fjármálaáætlun er ekki pólitískt mál og því afar mikilvægt að um það sé víðtæk sátt. Við getum deilt um efni hennar en eigum að vera sammála um umgjörðina. Í því skyni hef ég þegar sett í gang í fjármálaráðuneytinu vinnu um eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi hafa ábendingar fjármálaráðs þegar verið greindar og niðurstöður þeirrar greiningar verða hafðar til hliðsjónar við vinnu við fjármálaáætlun næsta haust.

Í öðru lagi hef ég óskað eftir því að vandlega verði farið yfir álit frá fjárlaganefnd, bæði meiri og minni hluta, og hugað að þeim athugasemdum sem þar koma fram. Þær ábendingar eru viðamiklar og ekki allar í sömu átt. Þær má flokka í tvennt, annars vegar efnislegar athugasemdir um einstaka málefnasvið og hins vegar athugasemdir um form og framsetningu. Sérstaklega verður hugað að síðarnefndu athugasemdunum við undirbúning fjármálaáætlunar á næsta ári.

Í þriðja lagi hef ég ákveðið að í ráðuneytinu verði greindar fjármálaáætlanir annars staðar á Norðurlöndum sem og frá fleiri OECD-ríkjum og kannað með hvaða hætti þessar þjóðir setja fram sínar áætlanir og dreginn lærdómur af því fyrir okkur.

Í fjórða lagi verða með næstu fjármálaáætlun aðgengilegar töflur á excel-formi settar fram á sama tíma og áætlunin er lögð fram. Þar mun meginefni áætlunarinnar og ítarlegri sundurliðanir koma fram.

Í fimmta lagi mun næsta fjármálaáætlun sýna áætlaða skiptingu milli rekstrar og framkvæmda í útgjaldarömmum málefnasviða. Ég hyggst kynna hv. fjárlaganefnd framvindu þessarar vinnu eftir því sem efni og tækifæri gefast.

Loks er rétt að benda hv. þingmönnum á að í næsta fjárlagafrumvarpi verður sundurliðað yfirlit um áætluð fjárframlög á einstaka liði til þriggja ára. Þetta auðveldar þingmönnum og öðrum að glöggva sig á því hverjir hinir undirliggjandi þættir áætlunarinnar eru, þó að markmið áætlunarinnar sjálfrar sé að marka útgjaldarammann á hvert málefnasvið fyrir sig.

Stefnt er að því að flýta vinnu fjármálaáætlunar samkvæmt lögum um opinber fjármál fyrir næsta vor þannig að meiri tími vinnist til þess að fjalla um hana í þinginu. Mikilvægt er að sú vinna verði markviss og þar mun þingið búa að því starfi sem unnið hefur verið í ár.

Frú forseti. Fjármálaáætlunin er framsækin áætlun sem sýnir aukið aðhald en bætir þó í á mörgum sviðum. Margir hafa talað um að aðhald í fjármálaáætluninni mætti vera meira en raun ber vitni, þó að það hafi verið aukið frá síðustu fjármálaáætlun. Aðrir vilja draga úr aðhaldi þannig að meira sé hægt að gera. Þarna verðum við að reyna að finna hinn gullna meðalveg. Það eru mörg verkefni í þessu samfélagi en peningarnir eru takmarkaðir. Það er þensla í samfélaginu einmitt núna og það eru ekki mörg tæki sem ríkið hefur til að sporna við þenslu. Þar hefur Seðlabankinn vaxtaákvörðunarvald og ríkisvaldið hefur fjárlög.

Þarna fylgjum við hinu gamla líkani Keynes sem lagði til að í þenslu myndi ríkið sporna við, í samdrætti myndi ríkið bæta í. Og einmitt til þess að við getum bætt í þegar þörf verður á, og það verður einhvern tímann þörf á, er í þessari áætlun metnaðarfull stefna um niðurgreiðslu skulda ríkisins sem þegar hafa verið greiddar niður um meira en 10% í ár og þannig spörum við vexti í framtíðinni. Það verður til þess að við getum eytt meira í gagnleg útgjöld, eytt meira fyrir hinn almenna borgara, eytt meira í framkvæmdir, en þurfum ekki að borga lánardrottnum.

En það eru mörg jákvæð atriði í þessari fjármálaáætlun. Það er ekki bara viðnám heldur líka sókn. Við sækjum fram í samgöngumálum þar sem er bætt við 20–25 milljörðum frá því sem var í síðustu fjármálaáætlun. Við bætum við í velferðarkerfinu, við setjum fram markvissa áætlun um að ljúka byggingu Landspítalans, verkefni sem allir þingmenn styðja en nú höfum við sett fram áætlun um hvernig við ætlum að gera það og við ætlum að ljúka því árið 2023. Þetta mun verða landsmönnum öllum til mikilla heilla.

Ég tók eftir því í umræðum hér í gær að borin voru saman framlög á nemanda í háskólum annars staðar á Norðurlöndum og á Íslandi. Það var ekki sagt að heildarframlög til háskóla í Stokkhólmi væru miklu meiri en til háskóla á Íslandi, heldur að framlög á nemanda væru meiri. Auðvitað er það eðlilegt, það er nemandinn sem skiptir máli, en þegar við hugum að framhaldsskólum þar sem við erum að bæta við framlögum á nemanda um 300 þús. kr. að raunvirði á tímabili áætlunarinnar horfum við á heildarframlög til skólanna, þ.e. þannig hafa margir hv. fulltrúar minni hlutans talað. En það er auðvitað nemandinn sem skiptir máli, rétt eins og í sjúkrahúskerfinu er það sjúklingurinn sem skiptir máli en ekki húsin eða stofnanirnar.

Fjármálaáætlun er mikilvægur rammi en auðvitað eru breytingar hugsanlegar. Við vitum ekki hver framtíðin verður nákvæmlega. Bara á þeim stutta tíma sem þingið hefur starfað núna eftir áramót hafa komið upp tilefni, sum hugsanlega að einhverju leyti fyrirsjáanleg, önnur hafa komið algjörlega á óvart og samtals erum við að tala um útgjöld upp á 10–15 milljarða kr. Þannig verður það líka í framtíðinni, við sjáum ekki allt fyrir. Við munum gera mistök við áætlanir og við verðum að leiðrétta þau mistök. Það munu koma fram nýjar þarfir og þá munum við leiðrétta áætlunina. Engu að síður er þessi fjármálaáætlun mikilvægur rammi, hún er leiðarljósið sem við munum fylgja og við munum fylgja því öll saman.

Við undirbúning þessarar áætlunar höfðum við viðamikið samráð við ýmsa aðila, m.a. við sveitarfélögin, og það er mikilvægt að allir gangi í takt vegna þess að ef við náum árangri í þessu, ef við náum þessu aðhaldsstigi sem stefnt er að með áætluninni, skapast aðstæður til þess t.d. að lækka vexti í samfélaginu og það er ein besta búbót sem hægt er að hugsa sér. Auk þess boðum við miklar kjarabætur fyrir allan almenning þegar almennt virðisaukastig verður lækkað í 22,5%.

Áætlunin er margt í senn, hún er framsækin og aðhaldssöm, en hún er fyrst og fremst leiðarljós sem við eigum að virða öll saman. Við eigum að virða þetta ferli, við munum reyna að taka tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið þannig að við náum vandaðri áætlun næsta ár og verðum sátt um aðferðafræðina í framtíðinni. (Gripið fram í.)