146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[11:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þarf að leggja hérna ákveðna áherslu á ákveðin atriði í nefndarálitinu til að það sé alveg skýrt. Í fyrsta lagi var umfjöllun nefndarinnar að miklu leyti um þetta jafnræði nemenda sem væri að finna í því að aðfaranámið er óumdeilanlega nám á framhaldsskólastigi, það er verið að kenna framhaldsskólaefni. Ef það er lánshæft, af hverju þá ekki svipað nám í framhaldsskólum, en samt undir þeim formerkjum sem aðfaranám skilgreinir? Út á það gengur breytingartillagan, að ef aðfaranám er kennt í framhaldsskóla þá sé það, eins og aðfaranám í háskóla, lánshæft.

Hins vegar eru athugasemd um að kröfur um gæði námsins verði tryggð. Þar sem þetta er nám á framhaldsskólastigi og framhaldsskólar geta einungis kennt staðfestar námsbrautir þá er ekki nema eðlilegt að aðfaranám sé einnig undir svipaðri staðfestingu og nám í framhaldsskólum. Krafan er í rauninni um það að gæði námsins séu staðfest á sama hátt og námsbrautir í framhaldsskólum. Það sem athugasemdin miðar að hjá mér er að gæði námsins verði tryggð.