146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[12:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi er ætlunin að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar um að lagastoð skorti til að veita tiltekin námslán. Breytingar allsherjar- og menntamálanefndar miða að því að skilgreina frekar inntak námsins en nákvæmlega þá staði þar sem það fer fram. Við náðum sameiginlegri lendingu í því þannig að öll nefndin gæti verið sátt við. Það er von þess sem hér stendur að í framhaldinu muni framhaldsskólar víða um land sjá tækifæri í þessu og hefja samtal við háskóla um að taka upp kennslu á aðfaranámi víðs vegar um landið til að fólk úti um land sem vill sækja sér þetta nám þurfi ekki að gera það hér, á þeim þremur stöðum þar sem námið hefur verið í boði til þessa.

Ég tek undir það með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni að nauðsynlegt sé í framhaldinu að skoða aðfaranámið víðar, skoða inntak námsins og skoða kosti þess að skilgreina það sem námsbraut innan framhaldsskólans, bæði til að tryggja gæði og jafnframt til að tryggja að sú prófgráða sem nemendur fá í hendurnar að loknu námi verði það sem þeir reikna með að hún sé. Það kom fram við umfjöllun nefndarinnar að oft er misbrestur á því að aðfaranámið hjá þeim sem bjóða það í dag sé kynnt með þeim hætti að það gildi eingöngu inn í þann háskóla sem það er kennt í tengslum við, engin trygging sé að það gildi inn í aðra háskóla. Margir nemendur sem stunda aðfaranám standa í annarri trú. Það þarf að tryggja að á því verði gerð bragarbót.

Það er stundum sagt að við séum ekki nógu dugleg að hrósa í þessum sal. Ég má til með, áður en ég lýk máli mínu, að hrósa þeim sem unnu saman að þessu máli í allsherjar- og menntamálanefnd. Við vorum með ósamrýmanleg sjónarmið þegar málið var afgreitt til 2. umr. en það náðist lending í því og við drógum breytingartillögur okkar, meiri hluti og minni hluti, til baka milli 2. og 3. umr. og leggjum hér fram sameiginlegar breytingartillögur sem eru málamiðlun sjónarmiða beggja. Þar má ég til með að nefna, án þess að ætla að halla á nokkurn annan nefndarmann, hv. þm. Pawel Bartoszek sem gekk á milli okkar í nefndinni og fann þessa snyrtilegu leið til að koma með breytingartillögu sem náði að umfaðma kjarnann í því sem við í minni hlutanum lögðum til við 2. umr. án þess þó að meiri hlutanum þætti of langt seilst í að opna flóðgáttir lánasjóðsins gagnvart námi sem er ígildi framhaldsskólanáms.