146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[12:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að almennt séð eigi ekki að vera nauðsyn á námslánum til hefðbundins framhaldsskólanáms sem er í boði í opinberum framhaldsskólum þar sem ekki eru skólagjöld og fólk er oftar en ekki í foreldrahúsum, þannig að framfærsla er á annarra herðum. Það er þessi hópur sem aðfaranámið er sett upp til að þjóna sem ég reikna með að litið verði til við þá heildarendurskoðun sem er fram undan. Það eru eldri nemendur sem hafa af einhverjum ástæðum helst úr námi eða hafa kannski lokið, eins og aðfaranámið byrjaði, iðnnámi og vilja fara upp á næsta námsstig. Þetta er hópur sem þarf gjarnan framfærslulán og þarf að líta til þegar heildarendurskoðun á sér stað.