146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[12:07]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, takk fyrir þetta. Það er auðvitað svo að iðnnám er lánshæft í dag og þegar aðfaranám í framhaldsskólum verður orðið lánshæft veltir maður því fyrir sér hvort hafa þurfi áhyggjur af því að ójafnræði myndist milli þeirra sem stunda nám í hefðbundnum dagskóla og þeirra sem stunda nám í kvöldskóla, í svokölluðu aðfaranámi. Ég velti því fyrir mér hvort þá verði til hvati til að fara frekar í aðfaranám — jafnvel ungir nemendur, sem þó eru komnir með þessi aldursmörk — í stað þess að klára hefðbundið stúdentspróf, af því að, eins og ítrekað hefur komið fram, aðfaranám er í dag ekki ígildi stúdentsprófs. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður deili þessum áhyggjum með mér, hvort sá hvati verði til að fólk sæki frekar í aðfaranám af því það verður lánshæft fram yfir hefðbundið framhaldsskólanám sem lýkur með stúdentsprófi.