146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[12:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég stenst bara ekki mátið og langar til að rökræða þessi mál örlítið við hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé. Ég ætla að leyfa þingmanninum að svara og ég veit að hann mun gera það með ánægju. Í sumum málum finnst mér Vinstri græn örlítið meira vinstri en græn. Ég er mjög grænn í þessum efnum og hef nokkra sannfæringu fyrir því að bílastæðagjöld séu mjög græn leið til þess að draga úr umferðarþunga, draga úr því að fólk noti bíla. Ég játa að ég myndi rukka bílastæðagjöld þótt ég þyrfti að henda þeim peningum sem af því söfnuðust, bara vegna þess að bílastæðagjöld myndu hafa þau áhrif að draga úr óþarfaakstri og hvetja fólk frekar til að samnýta bíla. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður taki undir þá skoðun mína að bílastæðagjöld séu græn leið, ekki bara til að afla tekna heldur til að breyta örlítið hegðun fólks. Eða er sannfæring hans fyrir því að samneyslan, sem fer þá fram í gegnum annars konar skattheimtu, sé það mikil að hann vilji frekar beita henni en bílastæðagjöldum?