146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[12:22]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu mati misskilur hv. þingmaður í grundvallaratriðum eðli vinstri stefnu og eðli umhverfisstefnu ef hann sér þetta sem einhvers konar mótsögn. Það er fátt sem er meiri vinstri stefna en akkúrat umhverfisstefna. Fátt gengur meira út á að samfélagið sem heild taki á erfiðum málum og setji í þau fjármuni. Það mætti vera meiri vinstri stefna í ríkisfjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar, stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar, því að innan þeirrar vinstri stefnu rúmast það að samfélagið sem heild tekur á sig skuldbindingar til að taka á þeim vanda sem að okkur steðjar þegar að umhverfismálum kemur. Að setja það síðan sem einhverja mótsögn að sett verði á bílastæðagjöld — ég játa að ég skil ekki þá hugarleikfimi og veit ekki hvort hún er eingöngu sett hér fram til að geta sagt að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé stundum meira vinstri en græn. Í mínum huga er það órofa heild þegar kemur að þessum málum.

Hv. þingmaður og ég sitjum saman í umhverfis- og samgöngunefnd. Við höfum unnið að þessu máli saman. Ég hef mælt hér fyrir áliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Hv. þingmaður á því að vera nokkuð vel upplýstur um skoðun mína í þessu máli. Afstaða okkar kemur bara í ljós við afgreiðslu málsins en hægt er að lesa vel í hana í gegnum þann feril sem ég var lýsti hér og ætti ekki að koma neinum á óvart.