146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[12:24]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það var eitt og annað óljóst í umræðum um viðkomandi frumvarp þegar þær fóru fram. Ég hélt ræður þar sem ég var að reyna að fá fram hvort bílastæðagjöld væru raunverulega aðgangsstýring að ferðamannastöðum eða ekki. Það kom í raun og veru aldrei fram, einfaldlega vegna þess að þá þarf að svara spurningunni fyrir einhvern tiltekinn ferðamannastað sem er á yfirráðasvæði sveitarfélags. Ef bílastæðið er fullt, mega þá ekki fleiri koma að staðnum? Verður bílum ekki lagt utan við bílastæði eins og tíðkast í dag? Verður eitthvert eftirlit og verður fólk rekið í burtu af vegum í nágrenni við þetta bílastæði ef það leggur þar og ætlar að komast á viðkomandi stað?

Það er lykilspurning þegar kemur að því hvort bílastæðagjöld séu aðgangsstýring eða ekki. Ég get ekki ímyndað mér það teljist hamlandi eða ekki að borga þrisvar, fjórum eða fimm sinnum 500 krónur í vikuferð sem kostar erlendan ferðamann 200 þúsund krónur á mann, eins og kannanir sýna. Ég get ekki séð það. Ég tel ekki að bílastæðagjöld virki í raun og veru sem einhvers konar aðgangsstýring nema ef það er óheimilt að leggja nokkurs staðar við viðkomandi stað nema inni á viðkomandi bílastæði.

Annað sem ég ræddi mjög í þessum ræðum mínum var nauðsyn þess að meta þolmörk svæða og staða. Stærð bílastæða hlýtur að ákvarðast ekki bara af einhverju heldur af raunverulegi mati á hvað viðkomandi staðir þola af umferð. Þegar allt kemur til alls snýst frumvarpið að nokkru leyti um að verið er að redda tekjum sem sveitarfélögin eiga vissulega skilið, án þess að það sé samræmd uppbygging á aðstæðum og þjónustu á ólíkum stöðum, hvort sem það er nú staður í einkaeign, í umráði sveitarfélaga eða opinberir þjóðgarðar, friðlýst svæði. Þó að við í minni hlutanum leggjumst ekki gegn frumvarpinu álítum við gríðarlegt verk að vinna til þess að þetta sé raunverulega þáttur í vitrænni uppbyggingu á ferðaþjónustunni.

Heildstæð gjaldtöku- og auðlindanýting í ferðaþjónustu er nokkuð sem búið er að kalla eftir í sennilega einn til tvo áratugi og enn er hjakkað dálítið í sama farinu. Það vantar forystu fyrir því að vinna svona vinnu á sem allra skemmstum tíma, búa til heildrænt skipuleg fyrir auðlindanýtingu og þá um leið auðlindavernd vegna ferðaþjónustunnar. Þetta er jú orðinn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Ef maður ber það saman við fiskveiðar hefur allt annar hugsunarháttur verið í gangi allt of lengi og við farin að súpa seyðið af því á marga vegu.

Enn eitt atriði hef ég bent á í þessu sambandi; það skortir líka heildrænt skipulag eða samstarf þannig að þær aðgerðir sem unnar eru, göngustígar og annað slíkt sem verið er að leggja á þessum stöðum, séu unnar af þekkingu og kunnáttu. Það hefur líka mjög skort á það. Svona redding, eins og ég kalla þetta, opnar jafnvel fyrir ýmiss konar vandamál sem við sjáum ekki fyrir sem gætu t.d. verið að eitt sveitarfélag tekur að sér að standa í framkvæmdum á einhverjum ferðamannastað, annað gerir það einhvers staðar annars staðar en ekki er samráð á milli, ekki er leitað til kunnáttuaðila. Þannig að ég sé í þessu eina og aðra hættu sem ég vona að við berum gæfu til að komast hjá.

En eins og fram kom leggjumst við ekki gegn frumvarpinu og teljum það hænuskref. Það er verk að vinna á komandi hausti og áfram. Við munum að sjálfsögðu taka þátt í því.