146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

411. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Breytingarnar felast fyrst og fremst í eftirfarandi: Lagt er til í frumvarpinu að hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða breytist á þann veg að ferðamannastaðir í eigu eða umsjón ríkisins falli almennt utan gildissviðs laganna. Verði frumvarpið að lögum skal sjóðurinn stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Einnig er lagt til að framkvæmdir á landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum komi almennt ekki til álita við úthlutun úr sjóðnum. Einnig er lögð til í frumvarpinu breyting á 2. gr. laganna um stjórn sjóðsins í því skyni að fækka stjórnarmönnum úr fjórum í þrjá. Þá er lagt til að tekjur sjóðsins séu framlag ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum hvers árs og því verði fallið frá því að tiltekið hlutfall gistináttaskatts renni til sjóðsins. Er þetta í samræmi við ný lög um opinber fjármál.

Nefndin leggur til þá breytingu við frumvarpið að stjórnarmenn verði fjórir eftir sem áður en ekki þrír eins og lagt er til í frumvarpinu og að fjórði stjórnarmaðurinn verði tilnefndur af þeim ráðherra sem fer með náttúruvernd. Breytinguna má sjá á þingskjalinu og leiðir af sjálfu sér að í fyrsta málslið kemur orðið þrír í staðinn fyrir fjóra og tilgreint síðan að á eftir orðunum „Sambands íslenskra sveitarfélaga“ komi: einn eftir tilnefningu ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar.

Nefndin leggur til samhljóða að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem ég lýsti. Undir þetta rita allir nefndarmenn, með fyrirvara þó hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Gunnar Ingiberg Guðmundsson. En við leggjum sem sé til að þetta frumvarp verði samþykkt.