146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar og Fiskistofa.

412. mál
[12:41]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Frú forseti. Ég er sammála frumvarpinu í meginatriðum og tel mjög til bóta að hægt sé að hafa eftirlit með ísprósentu, sem virðist hafa verið töluverður draugur sem hefur fylgt kvótakerfinu allt frá byrjun. Ég legg samt til breytingartillögu við frumvarpið eins og það liggur fyrir og er hún á þann veg að ég tók klausu úr reglugerð um fiskmarkaði, sem eru sannarlega vigtunarleyfishafar, og bætti við hana að hagsmunasamtök sjómanna gætu líkt og Fiskistofa fengið aðgang að þeim sem væru skráðir vigtunarleyfishafar á Íslandi. Þetta myndi í raun þýða að hagsmunasamtök og stéttarfélög og þess háttar gætu fylgt málum sínum betur eftir varðandi fyrirtæki sem vigta afla sinn sjálf. Það er í raun í anda stefnu Pírata um sjávarútvegsmál að upplýsingar skuli vera hjá almenningi og þær nýtanlegar til þess að veita kerfinu aðhald eins og það er í dag. En tillagan hljómar svona:

„Við I. kafla bætist ný grein sem verði 1. gr., svohljóðandi:

Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein sem verður 5. gr. a, svohljóðandi:

Vigtunarleyfishöfum er skylt að láta liggja frammi yfirlit um selt aflamagn hvers dags, kaupendur þess og verð. Skulu þeir daglega senda Fiskistofu afrit af slíku yfirliti. Þá skulu þeir senda félaga- og hagsmunasamtökum sjómanna skýrslu um seljendur, aflamagn, kaupendur og verð, sé þess óskað.“

Annars legg ég til að þó svo að breytingartillaga mín nái ekki fram að ganga verði frumvarpið samþykkt. Ég tel það sannarlega til bóta.