146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[12:54]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

Frumvarpið fjallar um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, sem eru samstæður fyrirtækja sem starfa bæði á sviði vátrygginga og banka- eða fjárfestingarstarfsemi, einkum varðandi eigið fé, áhættustjórnun og viðskipti innan samsteypa. Það byggist á tilskipun 2002/87/EB um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu, með breytingum samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB.

Verði frumvarp þetta að lögum mun verða í íslenskri löggjöf ákvæði um framkvæmd viðbótareftirlits með fjármálasamsteypum. Þá munu skyldur sem lagðar eru á eftirlitsaðila og Fjármálaeftirlitið hafa stoð í lögum. Með frumvarpinu er því lagt til að lagaumgjörð sé fyrir hendi ef reynir á viðbótareftirlit með fjármálasamsteypu hér á landi, sem er mikilvægt fyrir íslenskan fjármálamarkað.

Lagðar eru til töluverðar breytingar sem eru fyrst og fremst orðalagsbreytingar og tilvísanir. Þær eru á þingskjali 932 og eru alls í 26 töluliðum.

Undir nefndarálit þetta skrifa sá sem hér stendur, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Vilhjálmur Bjarnason. Lilja Alfreðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en Sigrún Ingibjörg Gísladóttir sat fundinn fyrir Jón Steindór Valdimarsson og er samþykk áliti þessu.