146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[14:27]
Horfa

Óli Halldórsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Það er út af fyrir sig gott að samstaða er um að ljúka þessu máli, það kom fram hér í ræðu áðan og hefur komið fram í þeim gögnum sem fyrir liggja. Það liggur fyrir að ekki er andstaða við að þessu máli verði lokið. Það er út af fyrir sig áfangi að þangað sé komið.

En ég kem inn í þetta mál á lokastigum eða á síðari stigum. Á þessu stigi er umræðan fyrst og fremst tæknileg, hún er lagatæknileg og snýst um form. Ég ætla samt að leyfa mér að spyrja stuttrar spurningar um efni, ekki um form heldur efni. Mig langar að beina þeirri einföldu spurningu til hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar hver afstaða hans sé til þessarar fjárfestingar þegar upp er staðið, að því gefnu að leið finnist til að framkvæma og ljúka þessu máli með formlegum og viðunandi hætti. Hver er afstaða hans til þessara framkvæmda? Er þetta skynsamlegt? Er þetta óskynsamlegt? Sjálfur er ég þess fullviss að þjóðhagslegt gildi þessarar framkvæmdar og framkvæmda af þessu tagi er ótvírætt. Ég held að það sé ekki hægt að verja fjármunum ríkissjóðs til mikið betri hluta nú á tímum en einmitt til fjárfestinga í vegum, göngum, brúm og fleiru þess háttar. Þetta er það sem við erum að kalla eftir í samhengi við fjármálaáætlun.

Þannig að spurningin situr eftir og ég ber hana fram hér: Er þetta skynsamleg fjárfesting eða óskynsamleg?