146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þyrfti eitt andsvar í viðbót til að ég geti áttað mig á spurningu hv. þingmanns því að ég held að afstaða mín til þessa hafi komið mjög vel í ljós. Ég skil ekki hvað vantaði upp á fyrra svar mitt í þessu. Það er ekki farið eftir þeim verkreglum sem Alþingi hefur sjálft sett sér. (Gripið fram í.) — Ég sagði það, eins og með allar aðrar framkvæmdir.

Þetta eru allt nauðsynlegar framkvæmdir en við forgangsröðum. Það er um að gera að klára þessi göng. Frábært. Það væri mjög kjánalegt að skilja þessa holu eftir. Ég hef ekkert á móti því. Athugasemd mín gengur út á það að við gerum þetta þá rétt. Í fyrsta lagi höfum við ekki fjárheimild til þess að borga út þessa 4,7 milljarða sem er ætlast til hérna. Til þess þyrfti í raun fjáraukalög. Þetta eru ekki lög um fjárauka. Ég skil ekki einu sinni hvað við eigum að gera með þessi lög. Jú, það má borga einhverja 4,7 milljarða en við höfum samt enga fjárheimild til að borga það út, þótt þessi lög séu sett. Þetta leysir ekki neitt.

Það eina sem ég er að biðja um er: Vinsamlegast klárið þetta mál með sómasamlegum hætti, því að það er rosalega nauðsynlegt fyrir íbúa á svæðinu þarna, fyrir íbúa alls staðar annars staðar á Íslandi sem hugsa sitt. Af hverju eru þeir ekki í svipuðum framkvæmdum? Af hverju er ekki verið að taka ríkisábyrgðarlán fyrir tvöföldun á brú á Suðurlandi eða gangagerð á Vestfjörðum og því um líkt? Af hverju fara bara ekki allir fram hjá fjárlögum og fjárheimildum eins og gert var þarna? Það skiptir greinilega engu máli hvort þetta er hagkvæm aðgerð eða ekki. Þegar allt kemur til alls hafa allar vegaframkvæmdir verið hagkvæmar samfélagslega séð þótt þær séu það ekki fjárhagslega séð. Lög um ríkisábyrgðir snúast um hvort þetta sé hagkvæmt fjárhagslega séð.