146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[14:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Gera rangt. Enn segir þingmaðurinn „óvænt frávik“ og að betri undirbúningur hefði komið í veg fyrir þau. (BLG: Fækkað þeim.) — Eða fækkað þeim. Það eru hans fullyrðingar, alveg eins og ég segi við hann hér og nú, eins og ég fór í gegnum varðandi norsku göngin: Ég get ekki sagt til um að lengri undirbúningur þar eða hér hefði skilað því að við vissum meira um göngin, jarðlögin eða setlögin, eða hvað það nú er, en þegar við fórum af stað. Það er ekki hægt að fullyrða að svo sé.

Við hefðum getað rannsakað í þrjú ár í viðbót og ekki er víst að við hefðum fengið betri niðurstöðu. Við hefðum samt lent í nákvæmlega sömu vandræðunum. Það er ekkert sem segir að það hefði ekki gerst. Það er heldur ekkert sem segir að það hefði ekki getað gerst. En hversu langan tíma getum við réttlætt í rannsóknir? Hvað mega þær kosta áður en við hefjumst handa í hverju verkefni fyrir sig? Viljum við rannsaka næstu göng í þrjú ár? Hvaða viðmið eigum við að gefa okkur ef við teljum okkur hafa náð tiltekinni niðurstöðu? Getum við farið af stað eða verðum við að rannsaka meira til að vera viss — um hvað?

Ég átta mig ekki alveg á þessum málflutningi og held að hv. þingmaður geti ekki fullyrt um þetta frekar en ég.

Lögin sem hér ræðir og heimildin í fjárlögunum: Ráðherrann getur undirritað lánasamning. Væntanlega gerir hann það, undirritar lánasamning eins og lögin um ríkisábyrgð gera ráð fyrir. Síðan þarf hann að sækja þessa fjárheimild í fjárlögum. Það er ekki verið að tala um að hann borgi hana endilega út núna. Ég hef ekki heyrt hann nefna það. Hann er að tala um að undirrita lánasamning. Og eins og hv. þingmaður (Forseti hringir.) veit kom það fram í nefndinni að verktakinn þyrfti að fá staðfestingu á að ríkið ætlaði að halda áfram að lána svo verktakarnir héldu áfram.