146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður áhugavert að sjá hvaðan sá peningur kemur sem kemur í veg fyrir að framkvæmdin stöðvist.

Nefnt var áðan að ég hefði talað um að hér væru brotin lög. Nei, ég nefndi dæmi þar sem ekki hefði verið farið að lögum. Það má kannski túlka það sem svo að ég hafi sagt að verið væri að brjóta lög. Þar er ekki innheimt afgreiðslugjald, áhættugjald er innheimt á skringilegan hátt og svo framvegis.

Í umræðum á samfélagsmiðlum um þetta mál segir Gunnar Tómasson, með leyfi forseta:

„Hæstiréttur hefur úrskurðað að lánveiting án marktækrar tryggingar um endurgreiðslu jafngildi refsiverðum umboðssvikum. Stjórnarskrá Íslands heimilar ekki refsileysi fyrir ráðherra fyrir refsiverð umboðssvik í mynd lánveitinga án marktækra trygginga um endurgreiðslu.“

Eigum við bara ekki að láta það duga? Bara senda þetta aftur til ráðherra og hann getur komið með þetta með fjárheimild?