146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[15:17]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni yfirlit hans og vil aðeins hnykkja á því sem hann kom að í blálokin á ræðu sinni, sem byggir á nefndaráliti okkar. Við fulltrúar Vinstri grænna í hv. umhverfis- og samgöngunefnd fögnum því að greitt sé eftir því samkomulagi sem gert var við sveitarfélögin á sínum tíma, en við teljum að með þessu frumvarpi og breytingu sé ekki staðið að fullu við það samkomulag. Það er of langt mál að rekja það í smáatriðum hvernig því samkomulagi háttar.

Staðreyndin er sú að ákvarðanir ríkissjóðs ollu sveitarfélögunum tekjutapi, mismiklu eftir sveitarfélögum, og var gert samkomulag um að bæta þeim það upp. Það hefur sýnt sig að sú leið sem ákveðið var að fara var ekki heppileg. Ég held við séum öll sammála um að við höfum lært af því að ekki eigi að fara þá leið. Jöfnunarsjóður er mjög mikilvægur og við eigum að standa vörð um hlutverk hans. Þess vegna er ekki heppilegt að vera að hræra í honum með því að fara einhverjar sértækar leiðir. Nauðsyn krefst þess þó nú, en þó þannig að það sé gert að hluta og aðeins hvað varðar heildarupphæðina. Þannig er reynt að ná samkomulagi við þá sem hafa gagnrýnt þá leið.

Eftir stendur hins vegar að sú fjárhæð sem undir lá samkvæmt útreikningum er 1.300 millj. kr. Hér er einungis verið að greiða 650 millj. kr. af því til þeirra sveitarfélaga sem urðu fyrir tekjutapinu þannig að eftir standa hinar 650 millj. kr. Við fulltrúar Vinstri grænna lítum svo á að það sé ríkisins, okkar Alþingis, ríkisstjórnar, að finna leið til að standa að fullu við það samkomulag.

Ég myndi leggja til að það yrði gert á annan hátt en í gegnum jöfnunarsjóð, en það þýðir ekki að málið sé úr sögunni. Þó að samkomulagið hafi á sínum tíma einungis verið munnlegt, þá á munnlegt samkomulag við ríkisvaldið að standa. Ríkið á að vera það vant að virðingu sinni að það standi við munnlegt samkomulag. Við lítum svo á og lýsum okkur tilbúin til þess að taka þátt í þeirri vinnu sem hlýtur að fara fram þegar þing kemur saman að hausti að standa að fullu við samkomulagið og finna þá aðra leið til þess en nýta jöfnunarsjóð.

Að öðru leyti tökum við undir þetta álit og styðjum það.