146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

376. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá umhverfis- og samgöngunefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er ætlunin að innleiða tilskipun 2010/75/EB um losun í iðnaði. Á meðal helstu breytinga sem frumvarpið hefur í för með sér eru flutningur útgáfu starfsleyfa frá svæðisbundnum heilbrigðisnefndum til Umhverfisstofnunar, upptaka skráningarskyldu í stað starfsleyfisskilyrðis fyrir nánar tilgreinda flokka atvinnustarfsemi og að starfsleyfi verði ótímabundin.

Allir þessir þættir sem ég hef hér nefnt sættu mikilli gagnrýni við umfjöllun nefndarinnar og ætla ég að koma hér inn á þessi þrjú atriði sérstaklega og gera grein fyrir vinnu nefndarinnar og þá um leið breytingartillögum sem fylgja í kjölfarið.

Fyrst varðandi útgáfu starfsleyfa. Nefndin telur rétt að bregðast við gagnrýni sem komið hefur fram um tilfærslu verkefna frá heilbrigðisnefndum til Umhverfisstofnunar og leggur til að horfið verði frá þeim áformum enda sýnt að þörf er á meiri greiningarvinnu og auknu samráði við hlutaðeigandi aðila í þessu máli. Nefndin leggur til að málið verði tekið upp á vettvangi ráðuneytisins við heildarendurskoðun laganna sem nefndin hefur verið upplýst um að fari fram á næstu misserum.

Þá aðeins um skráningarskyldu í stað starfsleyfa: Í frumvarpinu er, eins og ég kom inn á áðan, lagt til að ráðherra verði heimilt að ákveða með reglugerð að atvinnustarfsemi sem talin er upp í viðaukum II–V við frumvarpið skuli vera háð skráningarskyldu í stað starfsleyfis, sem er meginreglan um allan atvinnurekstur sem lögin taka til. Við umfjöllun nefndarinnar um málið hefur þessi breyting verið gagnrýnd, meðal annars af náttúruverndarsamtökum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Aftur á móti hefur breytingunni verið fagnað í umsögnum fulltrúa atvinnulífsins sem telja að í henni felist þörf og brýn einföldun á regluverkinu.

Nefndinni hefur verið bent á að síðan árið 2000 hafi verið í gildi auglýsing frá umhverfisráðuneytinu um lista yfir mengandi starfsemi þar sem ekki er krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar. Í auglýsingunni felist nokkurs konar ígildi skráningarskyldu fyrir tiltekna, einfalda atvinnustarfsemi sambærilega þeirri sem talin er upp í viðaukum III–V í frumvarpinu. Raunveruleg breyting frá núverandi framkvæmd, verði frumvarpið að lögum óbreytt, varði því einkum starfsemi sem tilgreind er í viðauka II.

Í stuttu máli telur nefndin rétt að stíga varlega til jarðar og leggur til að starfsemi í viðauka II verði undanskilin heimild ráðherra til að kveða á um skráningarskyldu í stað starfsleyfis og að þess verði gætt að undanþáguheimild þessi verði aðeins nýtt fyrir smærri tegundir starfsemi sem ljóst sé að ekki stafi hætta af með tilliti til umhverfismengunar eða af öðrum völdum.

Þá að þriðja atriðinu sem snýr að ótímabundnu starfsleyfi: Eins og ég kom inn á hér áðan er með frumvarpinu lögð til sú breyting á núverandi fyrirkomulagi að starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir verði ótímabundin en ekki tímabundin. Töluverð umræða átti sér stað um þetta atriði á vettvangi nefndarinnar og kom gagnrýni um breytinguna, fram meðal annars frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landvernd og Umhverfisstofnun. Þessir aðilar bentu á að ótímabundin starfsleyfi gætu verið erfið í framkvæmd og vísuðu til reynslu Svía í þeim efnum.

Aftur á móti komu líka fram þau sjónarmið fyrir nefndinni að breytingunni sé ætlað að skapa betra umhverfi fyrir starfsleyfsveitingar með hagræðingu sem dregur jafnframt líka úr álagi á stjórnsýsluna. Þá var vísað til þess að í núverandi fyrirkomulagi hafi það oft komið fram að vinna við umsóknir atvinnurekenda um nýtt starfsleyfi hafi dregist fram yfir gildistíma þess gamla. Í þeim tilvikum þurfi að veita sérstakar undanþágur sem starfað sé eftir ótímabundið en sæti reglulegri endurskoðun til tíma- og skriffinnskusparnaðar, eins og það var orðað af nefndinni.

Eftir þessa umfangsmiklu umfjöllun um framangreind sjónarmið hefur nefndin komið sér saman um að leggja til breytingu á frumvarpinu í þá veru að falla frá þeim áformum að starfsleyfi samkvæmt lögunum verði ótímabundin í stað þess að vera tímabundin líkt og nú er. Telur nefndin viðvaranir þeirra aðila sem annast eftirlit með framkvæmd laganna gefa tilefni til varkárni í þessum efnum.

Það eru, frú forseti, tvö önnur atriði sem ég ætla að koma stuttlega inn á. Fyrra atriðið snýr að skráningarskyldu heimagistinga. Þar kemur það til að nefndin er að leggja til þá breytingu á frumvarpinu að heimagisting verði undanskilin gististöðum í viðauka V í frumvarpinu. Er sú breyting lögð til í samráði við ráðuneytið og eftir ábendingu frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið með breytingunni er að heimagisting, samkvæmt 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, verði einungis skráningarskyld hjá sýslumanni en ekki jafnframt háð starfsleyfi eða skráningarleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir líkt og nú er.

Markmiðið með þessu er fyrst og fremst að hvetja til þess að heimagisting verði stunduð með lögmætum hætti. Samhliða þessu leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að eftirliti með heimagistingu sé sinnt á skilvirkan hátt. Til viðbótar við það er engu að síður mikilvægt að hafa í huga að eftirlitsaðilum sé gert kleift að sinna sínu hlutverki, hvort tveggja með nauðsynlegum lagaheimildum og fjármagni.

Hitt atriðið sem ég vil koma inn á sem nefndin leggur til breytingar á í frumvarpinu varða grænt bókhald og birtingu eftirlitsskýrslna. Nokkur umræða varð í nefndinni um kröfur um að fært sé grænt bókhald um starfsemi í viðaukum I–IV og um opinbera birtingu eftirlitsskýrslna. Nefndin var upplýst um að reglur um grænt bókhald væru til skoðunar í ráðuneytinu meðal annars með það fyrir augum að minnka kröfurnar fyrir starfsemi sem verður ekki starfsleyfisskyld heldur einungis skráningarskyld eftir að frumvarpið verður að lögum. Nefndin tekur undir sjónarmið í þessa veru og er sammála því.

Varðandi opinbera birtingu eftirlitsskýrslna tekur nefndin undir fram komin sjónarmið um að taka beri tillit til þess að af ýmsum ástæðum kunni að vera sanngjarnt og eðlilegt að ákveðnar upplýsingar fari leynt. Leggur nefndin til að við 5. mgr. a-liðar 30. gr. frumvarpsins bætist sá fyrirvari að rekstraraðilum verði veitt tækifæri til að koma að athugasemdum áður en eftirlitsskýrsla er birt opinberlega. Eftir atvikum verði þær athugasemdir birtar ásamt skýrslunni. Þessi breyting er í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga, sér í lagi reglurnar um andmælarétt.

Frú forseti. Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru tæknilegs eðlis og miða að því að samræma tilteknar frumvarpsgreinar þeim breytingum sem nefndin er að leggja til. Þá leggur nefndin til nokkrar breytingar eftir ábendingum í umsögn Umhverfisstofnunar, meðal annars um að birting auglýsinga um útgáfu og gildistöku starfsleyfa á vefsvæði útgefanda teljist opinber birting og að Umhverfisstofnun skuli senda grunnástandsskýrslur til viðkomandi sveitarstjórnar. Að þessu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur: Pawel Bartoszek, Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Birgir Ármannsson, Guðrún Ágústa Þórdísardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Haraldur Benediktsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé.