146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

376. mál
[15:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni sérstaklega fyrir yfirferð hans á málinu. Þetta var mjög greinargóð og sanngjörn yfirferð á því hvernig nefndin vann málið. Hv. framsögumaður Teitur Björn Einarsson kom þar inn á þau sjónarmið sem við þurftum að taka afstöðu til og fór svo vel yfir það hvernig það endaði í okkar sameiginlega nefndaráliti.

Mig langar aðeins að koma upp í þessu máli af því að í frumvarpinu eru ýmis atriði sem ég tel rétt að minnast á í pontu, ekki síst þar sem hvað sum þeirra varðar er yfirlýstur vilji ráðuneytisins til að taka þau upp aftur þegar þing kemur saman að nýju í haust. Ég er ánægður með þær breytingartillögur sem nefndin náði saman um að gera á málinu, en þetta frumvarp er EES-innleiðing að miklum hluta. Í það ferli var svo sett inn ýmislegt fleira sem hæstv. ráðherra vildi sjá hvað varðar breytingar á málaflokknum. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlileg málsmeðferð þegar á annað borð á að fara í einhverjar breytingar í málaflokknum vegna innleiðingar EES-tilskipana, að tækifæri sé nýtt til að fara í aðrar breytingar.

Margar þeirra breytinga sem hér var þó lagt til að fara í í upphaflegu frumvarpi hæstv. ráðherra voru þó þess eðlis að þær þurftu mun meiri skoðunar við. Þetta voru breytingar er lutu að mismunandi valdstigum hvað varðar annars vegar sveitarstjórnarvaldið og hins vegar ríkisvaldið og kalla á mun meiri yfirlegu en gefist hafði tóm til að fara í hvað varðaði vinnuna við þetta frumvarp. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd getur náttúrlega ekki tekið að sér þá samræmingarvinnu eða samkomulagsgerð og við horfðum til þess að vilji væri til þess af ráðuneytinu að fara í hana. Þetta lýtur að nokkrum atriðum, fyrst og fremst að því að færa töluvert af starfsemi sem í dag er starfsleyfisskyld, í flokkum til Umhverfisstofnunar þannig að hún verði einungis skráningarskyld hjá Umhverfisstofnun. Enn leggur þetta frumvarp það til og eftir nefndarálit okkar, en þó hefur verið dregið mjög úr því hversu stóra þætti starfseminnar verið er að tala um þar og eðli þeirrar starfsemi sem svo gæti farið um. Þetta hljómar kannski ekki eins og risastórt mál í eyrum allra hvort starfsemi sé starfsleyfisskyld hjá sveitarfélögum eða skráningarskyld hjá Umhverfisstofnun, en í grunninn lýtur þetta þó engu að síður að forminu sem við höfum um eftirlit og skráningu og starfsleyfi atvinnustarfsemi í landinu. Það lýtur að mörkunum á milli valdsins, nærsamfélagsins, og svo hins miðstýrða ríkisvalds.

Nefndin náði saman um að rétt væri að stíga varfærin skref í þessa átt og það þyrfti þá að fara í betri skoðun á því í framtíðinni.

Að endingu vil ég nefna það sem mér finnst kannski stærsta málið í þessu efni, það varðar ótímabundin eða tímabundin starfsleyfi. Hv. þm. Teitur Björn Einarsson fór ágætlega yfir þau sjónarmið sem fram komu þar um og reifaði vel þá niðurstöðu sem nefndin komst sameiginlega að. Ég vil aðeins segja hvað mig sjálfan varðar að þetta er töluvert stórt mál í mínum huga. Ég vil segja það í þessum ræðustóli vegna þess að ég veit að búið er að boða áframhaldandi skoðun á þessum málum, eins og ég kom inn á áðan, og við vísum til þess í nefndaráliti okkar. Allir þeir aðilar sem hafa umsjón með eftirliti með atvinnustarfsemi hér á landi leggjast gegn þessari breytingu, bæði Umhverfisstofnun og eins Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd heilbrigðiseftirlitanna.

Þetta er því ekkert smámál sem snýst um hagræði í því hvort eitthvert tímabil komi þar sem starfsleyfi fyrirtækja er runnið út og ekki er búið að gefa út nýtt. Við slíkar aðstæður má velta fyrir sér hvort ekki hefði verið betra fyrir fyrirtæki að fara fyrr af stað og huga að því fyrr að sækja um endurnýjun starfsleyfis, eða hvort ekki þurfi einfaldlega að efla þær stofnanir sem sjá um útgáfu starfsleyfa og endurnýjun þannig að slíkt tímabil komi ekki og ekki þurfi að gefa út undanþágur.

Þegar allir eftirlitsaðilar segja að það að gefa út ótímabundin starfsleyfi geri eftirliti þeirra erfitt fyrir, þá eigum við að hlusta, eins og við gerðum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Og við eigum að muna það þegar í vinnunni sem fram undan er. Við eigum ekki að draga þann lærdóm af þeim málum mörgum hverjum sem upp hafa komið á undanförnum árum er varða samskipti eftirlitsstofnana og einstakra fyrirtækja að það eigi að slaka á einhvern hátt á kröfum hvað varðar eftirlit og gera þeim erfiðara fyrir sem sjá um eftirlit.

Ég tek því heils hugar undir eftirfarandi setningu í nefndaráliti okkar:

„Telur nefndin viðvaranir þeirra aðila sem annast eftirlit með framkvæmd laganna gefa tilefni til varkárni í þessum efnum.“

Þá varkárni skulum við hafa í huga, bæði núna við afgreiðslu málsins núna en eins skyldi það koma aftur til okkar kasta þegar boðuð áframhaldandi vinna hvað þessi mál varðar fer af stað á næsta þingi.