146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að flytja okkur þetta nefndarálit. Mig langar hins vegar að spyrja þingmanninn aðeins nánar út í það sem fram kom í máli hennar. Það er varðandi það gat sem er hætta á að komi í meðferð á börnum og unglingum meðan verið er að bíða eftir nýju meðferðarheimili, ef ég hef skilið ræðuna rétt og nefndarálitið sem ég var búinn að renna yfir. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig er nákvæmlega hugsunin á bak við þetta? Hvað á að gerast þangað til nýtt meðferðarheimili verður risið? Nú er það þannig að þessum einstaklingum er sinnt á meðferðarheimilinu Háholti. Það sem ég er að falast eftir er hvort megi skilja orð þingmannsins með þeim hætti að það úrræði verði í það minnsta rekið þangað til nýtt meðferðarheimili verður risið.