146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði aðeins til að koma hér upp og ræða þessi málefni. Tekið er minna fyrir en upphaflega var lagt af stað með, eðli málsins samkvæmt, þar sem verið er að framlengja áætlun til eins árs en ekki lengri tíma. Þá er ekki hægt að komast yfir nema ákveðinn hluta. En fram kom í andsvörum við formann velferðarnefndar áðan umræða um Háholt — ég var reyndar að reyna að leita í gögnum mínum að því sem ég hafði komist yfir á síðasta kjörtímabili, því að þessi málefni koma aðeins fyrir, þ.e. um nýtingu á meðferðarheimilinu Háholti, hversu margir hefðu verið í vistun.

Ég myndi vilja vita hvers konar umræða fór fram í velferðarnefnd af hálfu Barnaverndarstofu gagnvart meðferðarheimilinu Háholti. Ég upplifði á sínum tíma að ekki væri mikill áhugi fyrir að nýta það úrræði og fannst það miður. Ef ég rifja það upp núna meðan ég tala þá voru helstu rökin þau að erfitt væri að ná í faglega þjónustu handa þeim nemendum sem þarna væru. Jafnframt var talað um að það væri betra að hafa meðferðarheimili nær fjölskyldu. Hv. þingmaður nefndi að það væri kannski líka verið að hugsa um aðila sem væru búnir að reyna ART-meðferðarrúrræðið og fleiri úrræði, og þegar allt um þryti væri þetta ein hjálpin í því sambandi. Ég spyr: Ef ekki á að nýta Háholt, eru einhver önnur heimili sem hafa komið til tals í velferðarnefnd sem myndu þá verða nýtt í staðinn?