146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það var nú akkúrat það sem mig minnti, að þetta væri ekki nægilega mikið nýtt og að það væri kannski vegna þess að ekki væri vísað á þetta úrræði. Það úrræði er bókstaflega ekki nýtt. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi þjónustuna. Það kom aðeins við mig þegar nefnt var á síðasta þingi að það væri slök þjónusta sálfræðinga, félagsráðgjafa og skorti á alls konar teymisvinnu á svæðinu. Við flytjum á sama tíma alls konar heilbrigðisþjónustu út um hinar dreifðu byggðir til þess að mæta þörf hins almenna borgara, sem er þó ekki í þeirri stöðu að vera inni á heimili eins og þarna er um að ræða.

Eins og þingmaðurinn benti á er mikið álag á heimilin í dag. Ég held að málum hljóti að hafa fjölgað eftir að lögræðisaldurinn var færður úr 16 í 18 ár. Þeim hlýtur að hafa fjölgað í takt við aukinn fjölda þeirra sem þurfa á þessum úrræðum að halda. Þess vegna var ég að velta fyrir mér hvort nú sé betri þjónusta fyrir börnin og hvort hægt sé að koma þeim fyrir á þeim heimilum sem starfrækt eru á stórhöfuðborgarsvæðinu. Ég geri þá ráð fyrir að það sé það sem verði ráðandi. Vissulega er fjöldinn og massinn hér. En stundum getur verið gott að komast svolítið langt í burtu til þess að byggja sig upp. Og þó að við höfum nú kvartað yfir samgöngum hér þá kemst fólk nokkuð greiðlega á milli til að heimsækja börnin sín. Það þarf að sinna ákveðinni þjónustu, en hvað þá um fjarþjónustu eins og samtalsmeðferð? Allt það gæti átt sér stað. Ég spyr aftur um fjölgunina og svo um heimilin: Er það klárt og liggur það fyrir (Forseti hringir.) að hægt verði að koma börnum fyrir ef þessu heimili verður lokað? Man þingmaðurinn hvort samningurinn við Háholt er að renna út?