146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:30]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég verð stuttorð. Það er nokkurn veginn búið að fara mjög vel yfir þetta mál í seinustu ræðum. Ég ætla að þakka hv. formanni fyrir framsögu hennar í málinu og tek hjartanlega undir með hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur í ræðu hennar, og áhyggjum líka. Ég deili þeim áhyggjum. Við leggjum bara vinnu í það að passa upp á að engir einstaklingar, engin börn, falli þarna á milli.

Það sem mig langar kannski mest til að leggja áherslu á er að sú áætlun sem við erum að ræða gildir einungis til 1. júní 2018. Ólíklegt er að það náist að hrinda öllum þeim verkefnum í framkvæmd sem áætlunin leggur til á þessum stutta tíma. Mig langar því til að leggja áherslu á mikilvægi þess að næstu framkvæmdaáætlanir verði lagðar fyrir Alþingi í samræmi við barnaverndarlög, þ.e. til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Í raun þykir mér mjög furðulegt að þurfa að standa hér og leggja áherslu á að ráðherra og ráðuneyti fari eftir lögum. Það virðist eitthvert furðulegt samkomulag hérna inni að það sé bara eðlilegur hlutur, hvort sem það heitir barnaverndarlög eða lög um opinber fjármál, að ekki sé farið eftir þeim.

En ég fagna því að þetta sjónarmið komi fram í nefndaráliti og nefndin komi til með að kalla ráðuneytið til viðræðna í haust til að tryggja að farið verði eftir þeim fyrirmælum nefndarinnar að ráðuneytið hefji vinnu við næstu áætlun strax í haust og henni verði skilað tímanlega til að standast barnaverndarlög. Þetta tel ég góða lendingu.