146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017--2021.

434. mál
[17:41]
Horfa

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni nefndarinnar, Nichole Leigh Mosty, fyrir kynningu á áliti nefndarinnar um þetta mál. Markmið þingsályktunartillögunnar er að tryggja að fólk með fötlun, bæði börn og fullorðnir, geti lifað sjálfstæðu lífi með reisn. Það er mikilvægt þegar fjallað er um málefni fatlaðra að haft sé að leiðarljósi hvernig mannréttindum fatlaðs fólks verði náð fram með áhrifaríkum hætti. Á síðasta ári var samningur um réttindi fatlaðs fólks fullgiltur af hálfu Íslands. Í umsögnum sem bárust nefndinni kom m.a. fram að þýðing samningsins á íslensku hafi verið illa unnin en í nefndaráliti velferðarnefndar er fjallað um mikilvægi þess að ráðuneytið bæti þar úr og vil ég taka undir þau orð nefndarinnar.

Sú breyting er lögð fram í nefndaráliti meiri hlutans að skoðað verði hvaða áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafi á líf fatlaðs fólks. Er þetta mjög mikilvægt. Það er nefnilega oft þannig að þrátt fyrir góðar fyrirætlanir löggjafans um að bæta skuli kjör jaðarhópa skortir á að fjármagn til verkefnanna sé tryggt. Ég vil því leggja áherslu á að fjármunir muni fylgja þeim verkefnum svo við getum raunverulega náð fram þeim úrbótum sem hér er stefnt að.

Að sögn stjórnvalda erum við nú að upplifa tíma þar sem hagsæld þjóðarinnar fer vaxandi með tilheyrandi aukningu á lífsgæðum almennings. Það er mjög mikilvægt að allir þjóðfélagshópar fái að njóta þessa hagvaxtar. Vinnum því saman að því að tryggja réttindi fatlaðs fólks og möguleika þess til sjálfstæðs lífs.