146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. velfn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um lyfjastefnu til ársins 2022.

Nefndin hefur fjallað allítarlega um málið á fundum sínum og fengið allnokkurn hóp gesta eins og rakið er í nefndaráliti. Jafnframt bárust umsagnir frá fjölmörgum aðilum.

Í nefndaráliti er fjallað um það að meginefni frumvarpsins gangi út á að tryggja aðgengi landsmanna að nauðsynlegum lyfjum. Vísað er til þess að lyf þurfi að vera á viðráðanlegu verði og tryggt sé að Sjúkratryggingar taki virkan þátt í kostnaði notenda svo að stuðlað sé að sem mestum jöfnuði.

Í nefndarálitinu er fjallað um athugasemdir sem bárust og við var brugðist og meðal annars vísað til athugasemda frá Bændasamtökunum varðandi dýralyf.

Í öðru lagi var fjallað um aðgang að lyfjum á landsbyggðinni og tekið fram að nauðsynlegt sé að kanna hvort æskilegt sé að heimilað verði að selja tiltekin lyf í lausasölu í almennum verslunum og er nokkur umfjöllun um það efni.

Fjallað var um svokölluð S-merkt lyf og leyfisskyld lyf og útboð til þess að ná sem hagkvæmustu verði í þeim efnum. Nefndin tekur undir athugasemdir sem komu frá Sjúkratryggingum Íslands og gerir ákveðnar breytingartillögur í þeim efnum.

Fjallað er um að fylgiseðlar lyfja séu ekki á rafrænu formi. Er fjallað um það í nefndarálitinu meðal annars á þeim forsendum að með því að fylgiseðlar séu aðgengilegir á rafrænu formi megi koma til móts við undanþágu frá kröfu um íslensku í áletrunum á fylgiseðlum, en það er til þess fallið að auka möguleika á sameiginlegum norrænum innkaupum og útboðum lyfja sem getur leitt til hagkvæmari innkaupa á þessum vörum.

Í nefndaráliti eru líka raktar aðrar athugasemdir og breytingartillögur sem um það fjalla. Til dæmis er áréttað að embætti landlæknis þurfi að hafa eftirlit með gæðum og öryggi lyfjanotkunar eins og veitingu heilbrigðisþjónustu. Tekið er undir það, sem fram kemur af hálfu Landspítalans, að stefna skuli að sameiginlegu miðlægu lyfjaskráningarkerfi sem sé mikilvægur hornsteinn sameiginlegrar sjúkraskrár á landsvísu. Nefndin ræðir þetta og gerir breytingartillögu um að kveðið verði á um svokallað miðlægt lyfjakort.

Í nefndaráliti er líka vikið að áherslum á lýðheilsu og forvarnir. Var nokkur umræða um það í nefndinni hvort lyfjanotkun hér væri óeðlilega mikil. Það er umræða sem við teljum mikilvægt að fari fram. Þegar horft er til forvarna og lýðheilsu er mikilvægt að hafa í huga, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að heilbrigðiskerfið verði að huga að þeim þáttum þannig að kerfið sé ekki eingöngu viðbragðsdrifið, þ.e. að orkan fari ekki öll í að bregðast við sjúkdómum og heilsuvanda þegar hann kemur upp heldur verði lögð meiri áhersla á að koma í veg fyrir að heilsuvandi komi upp.

Tekið er undir sjónarmið sem komu fram frá landlækni um varúðarupplýsingar með forskriftarlyfjum og áherslu komið á framfæri um að Lyfjastofnun gangi á eftir því að úr verði bætt í sambandi við varúðarupplýsingar á slíkum lyfjum.

Síðan er tekið undir það sem fram kom frá landlækni, og tengist því sem nefnt áður var nefnt um mikla lyfjanotkun hér á landi, að stefnt yrði að því að koma lyfjanotkun hér í átt að því sem er að meðaltali á öðrum Norðurlöndum. Nefndin leggur til breytingartillögu til að koma til móts við það.

Í niðurlagi nefndarálits er fjallað um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklaónæmra baktería og er tekið undir tillögur starfshóps á vegum heilbrigðisráðherra um að markvisst verði unnið að því að draga úr notkun sýklalyfja í þessu sambandi.

Síðustu efnisþættirnir sem vikið er að í nefndarálitinu víkja að umsögn Landspítala um ferli ákvarðanatöku um notkun leyfisskyldra lyfja. Nefndin er sammála athugasemdum Landspítalans að þessu leyti um að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð í þessum efnum verði sameinuð og jafnframt að tryggð verði fjármögnun málaflokks þannig að Ísland sé samanburðarhæft við helstu viðmiðunarlönd í þessu sambandi.

Í nefndarálitinu eru raktar ýmsar breytingartillögur sem lesa má um í þingskjalinu. En nefndin komst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að leggja til við Alþingi að frumvarpið verði samþykkt.

Undir það álit rita, auk þess sem hér stendur, Nichole Leigh Mosty, formaður nefndarinnar, og hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Halldóra Mogensen, Pawel Bartoszek, Steingrímur J. Sigfússon og Vilhjálmur Árnason.