146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð og lögum um opinber fjármál.

Álit okkar lýtur fyrst og fremst að því sem varðar breytingar á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Ákvað 2. minni hluti að greiða fyrir framgangi málsins í ljósi þess að það felur í sér lagfæringar sem ívilna þeim sem hyggjast nýta sér það úrræði sem samþykkt var á síðasta þingi um stuðning við þá sem hyggjast fjárfesta í fyrstu fasteign.

Ég fór yfir það hér í ræðu við 1. umr. hvernig málið var til komið. Ég mun ekki endurtaka það hér en segi að 2. minni hluti styður ekki málið, enda felur það í sér breytingar á lögum sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata greiddu atkvæði gegn á síðasta þingi. Ástæða þess er að þetta stuðningskerfi til kaupa á fyrstu fasteign er í raun mismununartæki þar sem sameiginlegir sjóðir skattgreiðenda eru nýttir til að mismuna ólíkum tekjuhópum þannig að þeir tekjuhærri fái hærri skattafslátt en hinir tekjulægri og þar með hærra hlutfall af opinberu fé úr sameiginlegum sjóðum í húsnæðisstuðning.

Það er algjör stefnubreyting frá því húsnæðisstuðningskerfi sem um langt skeið ríkti sæmileg sátt um, þ.e. vaxtabætur sem tóku mið af tekju- og eignastöðu. Þær hafa nú verið skornar niður um 70% á fimm árum en á móti eru lagðar til aðgerðir sem auka beinlínis mismunun og ójöfnuð. Staðreyndin er sú að miðað við þá útreikninga sem lagðir voru fram í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta þingi er afar ólíklegt að þetta úrræði muni gagnast stórum hluta ungs fólks ef miðað er við þróun fasteignaverðs sem enn hefur hækkað frá því að lögin voru samþykkt á sínum tíma, og svo miðað við miðgildi ráðstöfunartekna tveggja yngstu aldurshópanna (25–34 ára og 35–44 ára). Fyrst og fremst mun þetta því verða ráðstöfun opinbers fjár til tekjuhærri hópa án þess að ljóst sé að markmið laganna um að styðja ungt fólk til kaupa á fyrstu fasteign nái fram að ganga. Það hlýtur að teljast afar óskynsamleg ráðstöfun á skattfé.

Þessi afstaða 2. minni hluta hefur ekki breyst. Þær fyrirætlanir sem birtast svo í fjármálaáætlun núverandi meiri hluta á Alþingi um að draga úr húsnæðisstuðningi næstu fimm árin, þrátt fyrir ástandið á húsnæðismarkaði, benda til þess að ætlan núverandi ríkisstjórnar sé að einskorða húsnæðisstuðning hins opinbera við tekjuhærri einstaklinga í formi skattafsláttar en draga úr stuðningi við uppbyggingu leiguhúsnæðis sem nýtist fremur hinum tekjulægri og var að okkar mati það mikilvægasta sem síðasta ríkisstjórn gerði á sviði húsnæðismála og við studdum hana eindregið í.

Undir þetta álit skrifa Katrín Jakobsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy.