146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[20:45]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við í minni hlutanum, hv. þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd, Katrín Jakobsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy, leggjum fram breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda, (lán tengd erlendum gjaldmiðlum), sem hljóðar svo:

„1. Á eftir orðinu „vöxtum“ í b-lið 8. gr. komi: og leggur fram erlendar eignir í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til tryggingar láninu.

Ásamt því leggjum við til í 17. gr. um upplýsingagjöf um fasteignalán, að a-liðurinn haldi sér, þ.e. „a. Orðin „og leggur fram erlendar eignir í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til tryggingar láninu í 2. tölulið …““ — að a-liður standi.

Þannig viljum við í minni hlutanum minnka þá áhættu sem hlýst af þessum gengisbundnu lánum, þ.e. að þau séu veitt einstaklingum sem eru óvarðir í erlendri mynt.

Eins og frumvarpið er í dag, þá segir, með leyfi forseta:

„Lánveitandi skal aðeins veita lán tengd erlendum gjaldmiðlum til neytanda sem:

a. hefur nægilegar tekjur í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til að standast greiðslumat, eða

b. hefur staðist greiðslumat þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum, …“

Þarna viljum við bæta við, eins og ég sagði áðan, að við leggjum til erlendar eignir í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til tryggingar láni.

Þingflokkur Framsóknarflokksins telur að frumvarpið í heild sinni sé vanreifað og stjórnarflokkarnir hafi ekki lært mikið af fjármálahruninu og meira að segja í frumvarpinu sjálfu er gerð mjög góð grein fyrir því hversu illa gengisbundin lán léku heimilin á sínum tíma.

Með leyfi forseta, ætla ég að vitna í frumvarpið. Þar segir:

„Í lok september 2008 námu lán til einstaklinga tengd erlendum gjaldmiðlum um 320 milljörðum kr. eða um 17% af heildarskuldum einstaklinga. Þá tóku sveitarfélög í auknum mæli lán tengd erlendum gjaldmiðlum á árunum fyrir hrun og sömuleiðis fyrirtæki sem höfðu hvorki tekjur né áttu eignir í erlendum gjaldmiðlum. Skyndileg lækkun íslensku krónunnar á árinu 2008 bitnaði harkalega á efnahag lántaka sem ekki voru varðir fyrir gengissveiflum. Í lok árs 2008 voru tæplega 50% heimila með lán tengd erlendum gjaldmiðlum með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði en hlutfallið var rúmlega 20% hjá heimilum sem eingöngu voru með lán í íslenskum krónum sem ekki voru gengistryggð,“ — ég vek athygli á því að þetta er allt í því frumvarpi sem menn eru að keyra hérna í gegn — „þrátt fyrir að bankarnir hafi yfirleitt miðað við lægra veðhlutfall vegna erlendra lána. Áhætta vegna gengisbreytinga lána í erlendri mynt er því umtalsverð.“

Virðulegi forseti. Það er eins og við höfum ekkert lært af reynslunni. Þegar lánin voru dæmd ólögleg á sínum tíma voru afskriftir í bankakerfinu í kringum 150 milljarðar. Það er afskaplega stutt síðan hér varð algjört kerfishrun í fjármálakerfinu okkar og m.a. drifið áfram af ódýrum erlendum lánum sem voru í boði til íslenskra lánastofnana. En ráðherrann er hér kominn aftur með frumvarp. Við megum heldur ekki gleyma því að mikill gangur er í hagkerfinu þessa dagana. Þá hefur t.d. hlutdeild erlendra lána af nýjum útlánum bankakerfisins að frágengnum uppgreiðslum aukist úr 5,6% árið 2013 í 21,7% árið 2016. Þetta er gríðarleg aukning. Fer þetta algjörlega fram hjá stjórnarliðinu? Það er þess vegna sem við erum að mæla með þessari breytingartillögu til að verja heimilin í landinu.

Þá spyr ég: Er Ísland sér á báti? Er Ísland sér á báti varðandi það að gengistryggð lán séu vandamál? Nei. Það vildi þannig til að á sínum tíma ákváðu margir Austurríkismenn, sem eru með evru nota bene, að mjög skynsamlegt væri að taka lán í svissneskum frönkum vegna þess að það voru mjög freistandi vextir þar. Í janúar 2015 hækkaði svissneski frankinn skyndilega um 20% og mjög stór hópur lántaka lenti í miklum vandræðum. Sá vandi sneri einnig að því að þessi hópur lenti í miklum vanskilum. Það sama á við um hundruð þúsunda Pólverja, þeir lentu einnig í vandræðum af sömu ástæðu. Þetta var árið 2015. Í þessum ríkjum og fleirum hefur verið reynt að sporna við veitingu gengistryggðra lána til óvarinna lántakenda, t.d. settar stífari skorður við veðhlutföllum gengistryggðra lána og stífari kröfur um eiginfjárbindingu lánastofnana sem veita þau.

Þingflokkur Framsóknarflokksins er alfarið á móti þessu frumvarpi. Mig langar að nefna fimm þætti til að rökstyðja mál mitt enn frekar.

Í fyrsta lagi snýr þetta að fjármálastöðugleika, þ.e. lántaka í erlendri mynt sem er ekki gengisvarin eykur á fjármálaóstöðugleika. Því verður staðan að vera varin eins og við erum að leggja til. Við leggjum reyndar líka til að viðkomandi aðilar eigi erlenda eign. Af hverju gerum við það? Vegna þess að þá verður hægt að ganga að henni ef viðkomandi aðilar lenda í vandræðum. Þess vegna kallast þetta varin staða. Þetta er gert til þess að verja fjármálastöðugleika á Íslandi.

Í öðru lagi eru það jafnræðisrök því að ljóst er, eins og frumvarpið er skrifað, að það eru aðeins heimili sem eru nógu fjárhagslega burðug sem geta tekið lán í erlendri mynt. Því er verið að mismuna heimilum mjög verulega hvað þetta varðar. Þá munu margir hér inni spyrja: Af hverju er þá þessi breytingartillaga? Er ekki enn frekar verið að hygla þeim sem eiga erlendar eignir? En við gerum það í þeim tilgangi fyrst og síðast að passa upp á það að þetta séu ekki lán til óvarinna einstaklinga því að þeir hafa ekkert annað til þess að bjóða upp á en eignina sína ef illa fer.

Þá komum við að þriðju rökunum, þau lúta að peningastefnu. Það er ljóst að efnameiri heimili landsins munu búa við allt önnur vaxtakjör, og vaxtastefna Seðlabanka Íslands þar sem eru talsvert hærri stýrivextir, sem hefur nú ekki farið fram hjá neinum, mun aðeins ná til þessara heimila. Ekki er ólíklegt að þessi aðgerð verði þensluhvetjandi. Það er alls ekki það sem íslenskt hagkerfi þarf á þessum tímapunkti. Peningamagn í umferð gæti aukist og það er ekki það sem við viljum. Sumir gætu sagt að það þyrfti jafnvel að hækka vexti vegna þessa. Það væri nú alveg ótrúlegt ef Seðlabanki Íslands þyrfti að hækka vexti vegna þess að hann væri að veita gengisbundin lán á lágvaxtasvæðum. Það er líklega ekki það sem stjórnarliðar í þessu ástandi hafa hugsað sér.

Í fjórða lagi eru önnur ríki að þrengja að slíkri lántöku vegna þess að reynslan er hreinlega ekki góð. Þess vegna tel ég að við gætum lagt meira á okkur áður en við samþykkjum þetta frumvarp til þess að skoða frekari leiðir til að sporna gegn þessu.

Í fimmta lagi er staðan sú að það er einfaldlega mikil óvissa um peningastefnuna og gengisþróun þessi misseri. Það koma afar mismunandi skilaboð frá ráðamönnum þjóðarinnar. Forsætisráðherra talar fyrir því að krónan sé framtíðarmynt Íslands meðan fjármála- og efnahagsráðherra segir hreinlega að það sé óverjandi að halda áfram með krónuna. Þannig að uppi er talsverð óvissa og ákveðið uppnám er varðar peningastefnu landsins.

Að auki langar mig aðeins minnast á greiningu Arion banka frá því í morgun þar sem hann ræðir stöðu krónunnar. Með leyfi forseta, langar mig aðeins að fara yfir þau fimm rök þar sem þeir þar nefna að krónan sé líklega allt of sterk um þessar mundir. Þeir nefna í fyrsta lagi að Ísland sé líklega dýrasta land í heimi. Í öðru lagi séu laun á Íslandi með þeim allra hæstu sem gerist og í þriðja lagi fer afkoma í útflutningsgreinum hratt versnandi og í fjórða lagi sé talsverður skammtímameðbyr með krónunni. Síðast en ekki síst nefna þeir að færa megi ágætisrök fyrir því að krónan sé líklega komin yfir jafnvægisraungengið. Greiningardeildin spyr hvort krónan sé þá ekki farin að veikjast. Þeir telja að svo sé líklega ekki svona alveg á næstunni. Þvert á móti telur greiningardeildin að til skemmri tíma sé hægfara styrking líklegri. En hins vegar kemur það skýrt fram að þeir telja líkurnar á því að krónan verði veikari eftir fimm ár vera meiri en líkurnar á því að hún verði sterkari.

Virðulegur forseti. Hér er að sjálfsögðu um að ræða hagfræðilega greiningu sem metur horfurnar. En hér eru færð fram nokkur sannfærandi rök fyrir því af hverju staðan er mjög viðkvæm vegna þeirrar þenslu sem er uppi í samfélaginu og líka vegna þess mikla innflæðis sem við höfum verið að fá af erlendum gjaldeyri í gegnum þjónustujöfnuð. Það verður að taka það fram, virðulegi forseti, að styrking krónunnar er fyrst og síðast drifin áfram af þjónustujöfnuði þjóðarbúsins, og undir því stendur ferðaþjónustan.

Ef ferðaþjónustan verður fyrir ytra áfalli geta horfur hvað varðar þróun krónunnar versnað mjög skyndilega og mjög hratt. Ef við lítum á vöruskiptajöfnuðinn þá er mikill halli og líklega methalli í ár. Ef við hefðum ekki þjónustujöfnuðinn væri krónan mun veikari og mun verri horfur.

Þess vegna er ég mjög hissa á því að stjórnarflokkarnir séu tilbúnir til þess að fara fram með þetta frumvarp við núverandi aðstæður burt séð frá því og þeim mikla óstöðugleika sem við höfum fengið í tengslum við slík lán. Þetta frumvarp mun auka á óstöðugleika í þjóðarbúinu og stjórnvöld ættu að leita annarra leiða til að koma til móts við skuldbindingar sem felast í aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Menn verða að huga betur að hag heimilanna hvað þetta varðar. Frumvarpið er vanreifað. Breytingartillaga minni hlutans er gerð í þeim tilgangi að auka varnir og fjölga þjóðhagsvarúðartækjum til að styðja við peningastefnuna.

Að lokum hvet ég þingmenn til að hugsa sig verulega um áður en þessi lög verða samþykkt og huga að þeirri ábyrgð sem þeir bera. Á síðasta kjörtímabili náðum við Framsóknarmenn að stöðva frumvarpið í nokkur skipti. Ég á hreinlega mjög erfitt með að trúa því að þingmenn til að mynda í einum stjórnarflokknum, innan Bjartrar framtíðar, séu tilbúnir til þess að styðja frumvarp sem vegur svona að hag heimilanna.