146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:18]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stöðugleiki er grundvöllurinn; það er áhættuþáttur númer eitt, tvö og þrjú. Umræðan er miklu stærri og breiðari en það sem við ræðum hér, einhverjar afleiðingar. Afleiðingarnar voru þær að hér varð hrun, það voru vogunarsjóðir sem tóku stöðu gegn íslensku krónunni. Það gerðist á vakt þeirra ríkisstjórna sem hafa verið hér síðustu kjörtímabil.

Ég bind vonir við, miðað við þau úrræði og þær breytingar á lögum og reglum sem við höfum gert eftir hrun, að ekki skapist annað eins ástand og var hér á þessum tíma. Ég bind vonir við að ekki verði annað hrun. En áhættan er að minnsta kosti háð því að hér sé stöðugleiki.