146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvort túlka mætti orð þingmannsins með þeim hætti að þingmaðurinn hafi um leið verið að lýsa yfir fullu trausti á alla þá aðila sem tóku erlend lán án þess að hafa innstæður eða tryggingar fyrir því, sem varð að uppistöðu til til þess að hér fór nú allt fjandans til fyrir nokkrum árum síðan. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að slíkt geti gerst aftur?

Mig langar líka að spyrja þingmanninn í framhaldinu hvenær hætta skapist að hennar mati. Þegar lánasafnið er orðið 50 milljarðar eða 100 milljarðar? Hvenær á Seðlabankinn að grípa inn í? Hvenær er traustið farið, sem þingmaðurinn virðist ætla að hafa á þessari elítu sem mun geta tekið þessi lán? Hvenær er farið að sverfa að? Hvenær mun hún hafa áhyggjur? Er hún búin að gera sér grein fyrir þeim mælikvarða sem hlýtur að vera einhvers staðar í kollinum á þingmanninum fyrst hún er svona hrifin af þessu?

Ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi í raun skoðað málið ofan í grunn, ekki síst út frá þeirri reynslu sem hún virðist hafa og var nefnd hér sem einhvers konar mynd.