146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp, verði það að lögum, mun veita ákveðnum hópi tækifæri til að fara undan allt of háum vöxtum á Íslandi, verðtryggðum vöxtum, og taka lán í erlendri mynt með mun lægri vaxtabyrði. Við núverandi aðstæður er það mjög lokkandi fyrir stóran hóp Íslendinga. Það er vel hægt að taka undir það með hv. þm. Theodóru S. Þorsteinsdóttur að menn eigi að treysta fólki, eigi að treysta hverjum og einum. En þegar margir koma saman og þetta fara að verða verulegar fjárhæðir, segjum 50 eða 100 milljarðar, mun Seðlabankinn hugsanlega grípa inn í og segja að nú sé kerfisáhætta í gangi, að þetta sé orðin áhætta sem varði allan almenning. Og verði slíkt tjón þá lendir það á öllum almenningi með verðtryggðu lánin og háu vextina, en hinum verður bjargað ef þeir verða nægilega margir.

Í umræðum um þetta mál hér fyrr í vetur spurði ég hæstv. fjármálaráðherra hversu há slík upphæð þyrfti, að hans mati, að vera en ég fékk ekkert svar. Ég hjó eftir því hér áðan að hv. þm. Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagðist ekkert hafa á móti slíkum lánum og svaraði ekki þessari spurningu. Þá hlýtur maður að meta það svo að þeir tveir ágætu flokkar sem eru í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum séu sammála því að skynsamlegt sé að leyfa ákveðnum hópi að komast fram hjá stýrivaxtatæki Seðlabankans og búa til hugsanlega bólu sem Seðlabankinn þarf að grípa inn í.

Hefur hv. þingmaður, af því að hann situr nú í efnahags- og viðskiptanefnd, gert sér grein fyrir því hversu mikið megi taka af slíkum lánum, hversu margir megi taka þau og hversu há upphæð það verður áður en Seðlabankinn þarf að grípa inn í og stöðva svo að ekki verði (Forseti hringir.) tjón hjá öllum almenningi í landinu? Hinir munu auðvitað græða sem geta tekið þessi lán ef ekki verður nein kerfisáhætta og ekki tjón.