146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[21:56]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég á aðild að nefndarálitinu sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé gerði grein fyrir og vil árétta að Landmælingar sem ríkisstofnun geyma bæði gögn sem varða örnefni og landupplýsingar á gömlu og nýju formi.

Ég lít svo á að stofnunin sé nauðsynleg svo að þau verði ávallt aðgengileg, hvernig sem einkafyrirtækjum í greininni vegnar eða kann að vegna. Stofnunin er ekki lengur í samkeppni við einkafyrirtæki en kaupir af þeim gögn, eins og aðrar ríkisstofnanir, og mun gera það eftir sem áður. Kynntar breytingar á lögum um landmælingar og grunnkortagerð sem hér hafa verið reifaðar fara ekki á svig við þá starfshætti. Lögin eftir breytingar auka aðeins aðgengi að mikilvægum upplýsingum án þess að greiðslu sé krafist.

Þess vegna sér minni hlutinn ekki ástæðu til að gera breytingar á frumvarpinu, eins og kom fram í máli hv. þingmanns á undan mér, og við leggjum sameiginlega ásamt Guðrúnu Ágústu Þórdísardóttur frá Pírötum til að það verði samþykkt óbreytt.