146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[23:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja framsögumann nefndarálitsins hvort ég skilji það rétt, að með þessu ákvæði sé verið að úthluta ákveðnum hluta af sjávarauðlind, í þessu tilfelli þá þangi og þara, á þann hátt — og þá hversu há prósenta af þeim hluta er í almannaeigu sem fellur undir þessi nýju lög. Því að mikið af þessu, bróðurparturinn, ef ég skil það rétt, er í einkaeigu. Það er einmitt það sem hv. þm. Óli Björn Kárason var mögulega að gera athugasemdir við, að þarna væri á sértækan hátt verið að skerða eignarréttindi.

En einhver hluti er í almannaeigu og þarna á að taka ákvörðun um að úthluta því, ekki samkvæmt því sem ég veit að er alla vega í stefnu Samfylkingarinnar og í stefnu Pírata, að slíkum náttúruauðlindum skuli úthluta á uppboði og reynt að fá fyrir það sanngjarnt verð eða fullt gjald. Það er mismunandi hvernig það er orðað, í frumvarpi stjórnlagaráðs og annars staðar. En það er atriði sem við erum með í stefnu okkar Pírata. Veit hv. framsögumaður hversu mikill hluti af því sem verið er að úthluta er í almannaeigu?