146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Nichole Leigh Mosty) (Bf) (andsvar):

Ég skil að það séu ákveðnar áhyggjur hvað varðar þetta frumvarp. Þetta er mjög mikilvægt frumvarp og viðamikið. Hvað varðar faggildingu vottunaraðila ræddum við það einmitt í nefndinni. Það komu fram þó nokkrar ábendingar um veikleika í faggildingarmálum. Ég ætla að lesa eins snöggt og ég get upp úr reglugerð nr. 365 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins. Þar kemur fram að vottunaraðili fái faggildingu hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu og að vottunaraðili sem vottar jafnlaunakerfi skuli vera faggiltur. Til staðfestingar skal vottunaraðili geta framvísað faggildingarskírteini samkvæmt staðlinum þar sem fram komi að faggildingin eigi við staðalinn ÍST 85 og kröfur þessarar reglugerðar.

Eftir samtal okkar við ráðuneytið ræddum við í nefndinni áhyggjur okkar af þessu. Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt reglugerðinni er fullnægjandi fyrir vottunaraðila að vera faggiltur vottunaraðili samkvæmt ÍST ISO/IEC 17021 þrátt fyrir að hafa ekki hlotið faggildingu fyrir staðalinn ÍST 85. Það er á undanþágu.

Ráðuneytið ræddi við okkur. Það var á áætlun að fjölga þeim vottunaraðilum sem sinnt geta úttekt og vottað jafnlaunakerfi. Ég ætla að segja að ég hafi alveg trú á að mið hafi verið tekið af áhyggjum okkar og það verði faggiltir vottunaraðilar til þess að votta.