146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

>jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já. Píratar spyrja stórra spurninga og svörin virðast vera að ráðuneytinu sé bara treyst. Prófum því aðra stóra spurningu sem er álíka stór og frumvarpið sjálft.

Við jafnlaunavottun er gefið merki, voðalega skemmtilegt merki, sem segir að viðkomandi stofnun eða fyrirtæki hafi hlotið þessa vottun, jöfn laun. Það þýðir að þetta fyrirtæki greiðir jöfn laun fyrir sömu störf eða jafn verðmæt. Í meirihlutaálitinu segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að frumvarpið er skref í átt að því markmiði að tryggja að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu störf. Meiri hlutinn telur rétt að haft verði í huga að jafnlaunavottun er tæki til að ná fram launajafnrétti en ekki endanleg lausn vandans.“

Ef þetta er ekki endanleg lausn vandans þýðir það væntanlega að það eru ekki greidd jöfn laun fyrir sömu störf eða jafn verðmæt þegar þessu tæki er beitt. Þá spyr ég: Hvernig getur þetta verið jafnlaunavottun ef þetta er ekki endanleg lausn vandans? Ber frumvarpið þá ekki einfaldlega rangt nafn, eins og kom fram hjá umsagnaraðilum hjá nefndinni? Þetta er í rauninni bara starfaflokkun. Fyrirtækjum er gert að búa til störf og flokka þau niður, sem getur útskýrt launamun. Þegar allt kemur til alls, samkvæmt nefndaráliti meiri hlutans, kemur þetta ekki til með að skila jöfnum launum. Það stendur í nefndarálitinu. Hvernig er þá hægt að gefa út jafnlaunaskírteini? Er það ekki rangt orð?