146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Nichole Leigh Mosty) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að ræða egó hæstv. (Gripið fram í: Nei, ég …) jafnréttismálaráðherra. Við höfum átt mjög góð samskipti. Ég viðurkenni að það frumvarp sem kemur hér fram er mjög umfangsmikið. Við erum að reyna að gera eitthvað sem mun leiða til einhvers miklu meira. Ég vildi að við þyrftum ekki að laga eitt einasta frumvarp sem kemur fram, ekkert að ræða og ekki að liggja svo mikið yfir. En ég ætla hins vegar að segja að ég er frekar fegin allri vinnunni. Ég taldi upp 27 gesti en þá eru ekki talin þau tvö skipti sem ráðuneytið kom með heilt lið. Þá eru það kannski meira en 30 gestir sem komu mörgum sinnum. 22 umsagnir bárust. Ég er mjög þakklát fyrir alla umræðu sem orðið hefur. Ég er þakklát fyrir að við erum að leggja fram breytingar og ræða þær og munum vakta það að þetta gangi vel áfram, óháð því hvernig það kemur til okkar. Hérna er verið að tala um nýjung. Við erum að reyna eitthvað og þurfum að viðurkenna það.

En hv. þingmaður byrjaði að tala um innra eftirlit og ytra, ef það er eitthvað, en aftur ætla ég að vitna í seinustu heimsókn sem við fengum og reynslu þeirra gesta. Mér finnst svolítið magnað að heyra menn segja: Það kom í ljós að við þurftum að hafa innra eftirlit. Við hugsum kannski ekki um að við þurfum einhvern innan húss sem hugsar um jafnréttismál. Þegar það kemur í ljós taka menn skrefið alveg til baka og segja: Vó, við erum að gera þetta rétt. Með tilliti til þessa frumvarps, þ.e. að við erum hér með innra eftirlit og munum stofna eitthvert ytra eftirlit, segjum við líka: Vó, við þurfum að gera þetta rétt.