146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[00:00]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Frú forseti. Sem framsögumaður minnihlutaálits ætla ég að byrja á að fara í gegnum það áður en ég tala um hvernig þetta mál hefur kannski blasað við mér, alla vega þessa viku sem það hefur verið í vinnslu en alveg sérstaklega í dag. Það er búin að vera mjög skrautleg framvinda á málinu í dag.

Ég les nú nefndarálitið, svo ég ljúki því af formlega, til að ég geti vikið mér að því sem ég hef annað að segja, með leyfi forseta:

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur haft til meðferðar frumvarp til laga um breytingu á lögum jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með síðari breytingum. — Hér er löng upptalning á gestum okkar sem ég held að búið sé að fara rækilega yfir þannig að ég sleppi henni.

Frumvarpið leggur til breytingar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, um að skylda fyrirtæki og stofnanir, með fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, til þess að afla sér sérstakrar vottunar faggilts vottunaraðila. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að vottunaraðilar hafi öðlast faggildingu hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 929/2014 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. Þá er gert ráð fyrir því að með vottuninni geti fyrirtæki og stofnanir unnið gegn kynbundnum launamun meðal starfsmanna sinna.

Í umsögnum kom fram margvísleg gagnrýni á frumvarpið. Sér í lagi frá Staðlaráði Íslands, sem harmaði samráðsleysi við ráðið og hefur nú sent allsherjar- og menntamálanefnd — eða raunar þinginu öllu — bréf þess efnis að breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar, sem reyndar hefur verið dregin til baka, þess efnis að kröfur staðalsins birtar í reglugerð jafngildi eignaupptöku ráðherra á eignum ráðsins.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 10. janúar 2017 þar sem kveðið er á um að jafnrétti í víðtækri merkingu sé órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi og að þar vegi jafnrétti á vinnumarkaði þungt. Þar er einnig kveðið á um að í því skyni að sporna við launamisrétti vegna kynferðis verði áskilið að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp jafnlaunavottun. Því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar var útbýtt 4. apríl sl. og er 1. umr. um það lokið. Málið gekk til allsherjar- og menntamálanefndar þann 26. apríl. Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar bendir á að frumvarpið hafi verið lagt fram eftir þann frest sem tilgreindur er í 3. mgr. 37. gr. laga um þingsköp, nr. 55/1991. Þá hafi tími til umfjöllunar verið mjög af skornum skammti fyrir svo veigamikla breytingu sem hér er lögð til.

Með frumvarpinu er lagt til að stofnunum og fyrirtækjum þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa verði gert skylt að undirgangast jafnlaunavottun, en það verði gert með þeim hætti að vottunaraðili staðfesti að viðkomandi fyrirtæki eða stofnun uppfylli kröfur staðals Staðlaráðs ÍST 85:2012. Ekki hefur tíðkast hér á landi að lögfesta staðla með þeim hætti sem hér er gert, þ.e. að fyrirtækjum eða stofnunum verði lögskylt að fylgja þeim að viðlögðum dagsektum. Í máli gesta og í umsögnum sem nefndinni bárust hefur þetta fyrirkomulag fengið nokkra gagnrýni.

Má þar einna helst líta til umsagnar Staðlaráðs Íslands. Staðlaráð er eigandi þess staðals sem lagt er til að verði lögfestur en þrátt fyrir það telur Staðlaráð ekki rétt að skylda fyrirtæki og stofnanir til þess að innleiða staðalinn. Staðlar séu almennt ætlaðir til valfrjálsrar notkunar og eigi þeir frekar að láta fyrirtækjum og stofnunum í té lausnir en vera skyldubundin úrræði. Vottun á jafnlaunakerfi samkvæmt ÍST 85:2012 sé ein lausn sem fyrirtæki og stofnanir geti notað til að sýna fram á að þau fari að lögum en slík vottun þurfi ekki — og ætti ekki — að vera eina úrræðið. Það vekur athygli að sá aðili sem samdi staðalinn skuli mæla gegn því að hann verði lögfestur eins og hér er lagt til. Staðlaráð gagnrýnir einnig að ekki hafi verið haft samráð við ráðið fyrir framlagningu frumvarpsins. Það verður að teljast merki um ófagleg vinnubrögð að ekki hafi verið haft samráð við höfund staðalsins sem á að lögfesta áður en lagafrumvarpið var lagt fram.

Þá verður einnig að líta til þess að samkvæmt. 27. gr. stjórnarskrárinnar skal birta lög. Um birtingarháttu og framkvæmd laga fari að landslögum. Í umfjöllun gesta kom fram að til þess að frumvarp þetta verði að lögum verði að tryggja að staðall sá sem hér er vísað til verði birtur opinberlega þannig að hann sé aðgengilegur öllum án endurgjalds. Fram hefur komið sú mögulega lausn að staðallinn verði birtur með reglugerð ráðherra sem sett verði með stoð í lögum þeim sem frumvarp þetta leggur til breytingar á. Þetta hefur breyst eins og fram hefur komið.

Þar sem sú reglugerð liggur ekki fyrir við umræðu um frumvarpið verður að líta svo á að uppi sé stjórnskipunarleg óvissa sem ekki hafi verið fyllilega skýrð. Það er mat minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar að óvissu þessa verði að skýra fyllilega áður en frumvarpið verði að lögum. Enn fremur hefur nú komið í ljós að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hafði heldur ekki samráð við Staðlaráð þegar það lagði fram breytingartillögu sína þess efnis að kröfur staðalsins skyldu birtar í reglugerð ráðherra. Staðlaráð lítur svo á að með birtingu staðalsins í reglugerð sé brotið á eignarrétti ráðsins, nánar tiltekið höfundarétti þess á staðlinum sem jafnlaunavottunin byggir á.

Fyrr á árinu tók gildi reglugerð nr. 365/2017 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85. Samkvæmt. 4. gr. reglugerðarinnar fær vottunaraðili faggildingu hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu. Vottunaraðili sem votti jafnlaunakerfi skal vera faggiltur samkvæmt 4. gr. Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar er vottunaraðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt ÍST ISO/IEC 17021 heimilt að framkvæma úttektir og votta jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnana samkvæmt ÍST 85 til 31. desember 2019. Í meðförum nefndarinnar á málinu hefur komið fram að faggildingardeild Einkaleyfastofu sé ekki í stakk búin til þess að sinna því aukna álagi sem muni fylgja lögfestingu frumvarpsins. Ráðuneytið hefur enda ekki lokið vinnu við þau viðmið sem líta beri til við faggildingu staðalsins. Þá skuli bregðast við getuleysi faggildingardeildarinnar með því að heimila vottunaraðilum að stunda úttektir samkvæmt lögunum með því skilyrði að þeir hafi sótt um faggildingu, en ekki að þeir hafi hlotið faggildingu áður en þeir fái heimild til þess að gerast vottunaraðilar. Þegar svo er í pottinn búið er ekki hægt að segja að faglega verði staðið að slíkum vottunum né heldur að stofnanir hins opinbera séu tilbúnar til þess að takast á við þau verkefni sem frumvarpið leggur þeim á herðar.

Í meðförum nefndarinnar komu fram þær áhyggjur að standi ekki vel menntaðir sérfræðingar að baki jafnlaunavottun og úttekt verði staðallinn lítils megnugur gagnvart þeim huglægu þáttum sem valda því að störf karla og kvenna eru gjarnan metin misverðmæt eftir kyni. Verði ófaggiltum vottunaraðilum leyft að gera úttektir á jafnlaunakerfum fyrirtækja er hætt við að útkoma frumvarpsins verði mögulega að greidd verði sömu laun fyrir sömu störf, en ekkert tryggir að greidd verði sömu laun fyrir sambærileg störf.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur lagt fram breytingartillögu sem felst í því að Stjórnarráð Íslands skuli vera fyrsti aðilinn til að undirgangast jafnlaunavottun samkvæmt lagafrumvarpinu. Ekki hefur farið fram greining á því hver kostnaður ríkissjóðs muni verða af þessari framkvæmd en minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar telur að nauðsynlegt sé að kostnaðarmat verði gert áður en breytingartillagan verði að lögum.

Rétt er að taka fram að minni hlutinn styður tilgang og markmið frumvarpsins um að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Jöfn kjör kynjanna eru ein af grunnstoðum jafnréttissamfélags. Það er því miður að mál þetta skuli fært til 3. umr. og atkvæðagreiðslu þegar ljóst verður að teljast að málið er hvergi nærri tilbúið til afgreiðslu. Tími til umfjöllunar um málið hefur verið mjög af skornum skammti og eru margir þættir þess enn óskýrðir. Engin málefnaleg rök hafa komið fram sem rökstyðja það að mál þetta verði að afgreiða nú. Málsmeðferðin hefur leitt til þess að ekki hefur verið raunhæft að skoða breytingar sem leitt hefðu til þess að frumvarpið yrði unnið í sátt allra aðila sem það snertir. Ef frumvarpið á að ná því markmiði sem að er stefnt er nauðsynlegt að málið sé unnið vel og í sátt. Verði frumvarpið að lögum á þessum tímapunkti verður að teljast ólíklegt að það nái markmiði sínu.

Minni hlutinn leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir álitið rita sú sem hér stendur og Gunnar Ingiberg Guðmundsson.

En nú vík ég að þessari æsispennandi framvindu dagsins í dag, virðulegi forseti. Nú hefur komið í ljós að þvert á það sem hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra virðist hafa haldið er Staðlaráð ekki opinber aðili í þeim skilningi sem hæstv. ráðherra hafði lagt í það. Því er breytingartillaga sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hafði lagt fram um að staðallinn eða kröfur hans skyldu birtar í reglugerð að engu orðnar. Það sem þetta þýðir í raun og veru er að hér erum við að setja lög um það að fyrirtæki skuli fylgja ákveðnum staðli sem felur í sér ítarlegar kröfur þeim á hendur að viðurlögðum refsiákvæðum án þess að þeir hafi frjálsan aðgang að þessum staðli og án þess að samráð hafi verið haft við Staðlaráð um hvernig eigi að fara að þessu öllu saman, hvort megi yfir höfuð nota þennan staðal og hvað Staðlaráði finnist um að þessi staðall sé notaður.

Jafnlaunavottun, ef hún er vel unnin, er að sjálfsögðu hið besta mál. En við í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar, þ.e. við Píratar, stöndum gegn þessu máli þar sem okkur finnst það ekki fullbúið. Við sjáum ekki hin málefnalegu rök fyrir því að drífa þetta í gegnum þingið núna, korter í þinglok, eða raunar mætti segja fimm mínútur í, einfaldlega til þess að tikka á einhvern lista hjá hæstv. ráðherra sem vill klára þetta mál núna þótt það sé ekki tilbúið. Það hefur komið fram að ýmislegt vanti upp á til að öruggt sé að vel verði farið með þetta mál. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé skýrt hvernig verði að þessu farið og skýrt fyrir fyrirtækjum hvaða væntingar eru gerðar til þeirra. Og að faggildingardeild viti almennilega hvernig hún eigi að faggilda fyrirtæki í þessu ferli og þar sem fram hefur komið líka í meðförum málsins að þau viðmið sem nota á við faggildingu eru enn þá í vinnslu í ráðuneytinu.

Hvað þetta varðar vorum við svo sem tilbúin að hleypa þessu máli í gegn þótt við værum alls ekki á því að það væri tilbúið þegar fram kom að það yrði alla vega séð til þess að þær kröfur sem lagðar eru á herðar 1.100 plús fyrirtækja hér í landinu yrðu gerðar opinberar. Svo kemur í ljós að hæstv. ráðherra hefur enga heimild til að birta þessar kröfur. Hefði hann látið af verða hefði það falið í sér eignaupptöku á höfundarétti Staðlaráðs. Þetta er náttúrlega með miklum ólíkindum, frú forseti.

Nú er það svo að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur gefið þau fyrirmæli til hæstv. ráðherra að hann skuli semja við Staðlaráð Íslands um einhvers konar aðgang að þessum staðli. Við vitum ekki hvers konar aðgang og við vitum ekki hversu mikið það mun kosta. Það er náttúrlega bara í ætt við það að ekki hefur farið fram kostnaðarmat á því hvað þetta mun kosta ráðuneytin og Stjórnarráðið og allar þær opinberu stofnanir sem munu þurfa að fara í gegnum þetta mat ef breytingartillögur meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fá að ganga eftir. Það er sömuleiðis með eindæmum furðulegt að við séum að rétta óútfylltan tékka til velferðarráðuneytisins um að semja við það sem við vitum núna að er einkaaðili um kaup á þessum staðli. Mér þykir það setja réttaröryggið í talsverða óvissu, þ.e. við vitum ekki hversu góðan aðgang fólk fær að þessu. Kannski fær það bara afslátt, kannski fær það bara að sjá þetta í einhverja smástund eða einhver tímabundinn aðgangur verður. Ekkert af því liggur fyrir. Samt skal þvinga málið í gegnum þingið akkúrat núna.

Ástæðan fyrir því að ég hef áhyggjur af þessu er einfaldlega sú að það liggur ekki nógu vel fyrir hvernig þessu faglega mati á jafnlaunavottun skal vera háttað. Það liggur ekki nógu vel fyrir að þeir aðilar sem fá til þess heimild að votta jöfn laun hjá fyrirtækjum séu til þess bærir, hafi til þess þekkingu, reynslu, hafi skilning á þessum staðli, og ekki bara skilning á honum heldur líka skilning á víðara samhengi sem liggur að baki launamun kynjanna. Það kom fram ágætt dæmi einmitt um þetta. Það er eitt að veita jöfn laun fyrir sömu störf, þ.e. bara nákvæmlega sama starfsheiti, en það er ekkert í frumvarpinu sem hjálpar okkur að sjá hvort verið er að veita sömu laun fyrir sambærileg störf. Alla vega ekki ef við tryggjum ekki að það séu almennilegir og faggiltir vottunaraðilar sem koma að þessu.

Ef málið er jafn illa undirbúið og það er nú og fer svona af stað og ekki er almennilega vitað hvernig verður að þessu staðið er hætt við að þær áhyggjur sem fram hafa komið á fundum nefndarinnar um að komi ekki verulega færir sérfræðingar að þessari úttekt allri saman, að þá verði ekki jafnlaunavottun heldur einfaldlega hvítþvottur fyrir fyrirtæki sem geta sýnt fram á sinn rökstuðning fyrir því að þetta starf sé öðruvísi en hitt starfið og þar af leiðandi sé allt í lagi að greiða mismunandi laun fyrir. Það er mjög auðvelt að útskýra launamun með þessu kerfi, sé einbeittur brotavilji fyrir hendi. Í því ljósi finnst mér mjög mikilvægt að málið sé unnið almennilega.

Tilfinningin hjá mér að vinna þetta mál akkúrat núna eins og það er unnið og að drífa það svona í gegnum þingið og leggja það allt of seint fram og gefa því ekki nægan tíma og ráðfæra sig ekki við Staðlaráð sem á höfundarétt að staðlinum og vera ekki tilbúin með þær stofnanir sem eiga að sjá um að þetta gangi vel fyrir sig — ég fæ ekki séð að það séu málefnaleg rök fyrir því að samþykkja málið núna. Ég skil ekki af hverju það fær ekki að bíða fram á haust. Nema bara til að klára einhvers konar tékklista um að það verði nú alla vega að afgreiða einhver mál sem Viðreisn hefur lofað. Ég man ekki betur en að þetta hafi átt að verða fyrsta þingmálið sem Viðreisn ætlaði að leggja fram. Ég sá ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi eytt meiri tíma í að ferðast um útlönd og berja sér á brjóst út af þessari jafnlaunavottun á erlendum ráðstefnum í stað þess að vinna málið náið í samvinnu við þing og þá sem málið varðar. Enda kom það fram of seint og ekki gafst einu sinni mánuður til að fara í gegnum þetta á fundum nefndarinnar.

Það má kannski geta þess líka að nefndin hafði aldrei aðgang að þessum staðli á meðan gestakomur áttu sér stað í nefndinni um málið. Þannig að við höfðum ekkert til að bera saman við þegar gestir nefndarinnar voru að ræða um efni þessa staðals. Því að rétt eins og þau fyrirtæki sem þurfa að sæta þessum staðli höfðum við ekkert aðgang að honum. Það var eitt jöfnunarstaðalsblað eða öllu heldur bæklingur að flakka á milli þingmanna sem voru að kynna sér málið.

Þetta mál er auðvitað mikilvægt. Þess vegna er mikilvægt að vinna það vel. Það þarf hvort eð er að taka nokkur ár í að innleiða þennan staðal. Það munar ekki um nokkra mánuði að vinna það betur og í sátt við alla sem að málinu koma og þannig að öllum lítist vel á þessa hugmynd í sinni útfærðu mynd. Því að auðvitað er markmiðið gott. Algerlega. En mér og okkur þykir ekki sannað að því verði náð með því að flýta málinu svona í gegn og með því að vinna það ekki almennilega.

Því leggjum við til að þetta fái að bíða fram á haust og hæstv. ráðherra vinni málið aðeins betur á meðan.