146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[00:49]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Nú er ég einn þeirra sem hafa alltaf haft illan bifur á þessu máli. Ég óttast að það að lögfesta jafnlaunavottun með þessum hætti sé eingöngu til þess gert að skerða og skaða samningsstöðu verkafólks á vinnumarkaði, að þetta geri þeim erfitt fyrir vegna þess að þegar þau koma fram með þær ábendingar að það sé kannski einhver munur á launum milli kynja mun fyrirtækið geta sagt: Nei, sjáið, við uppfylltum þessa vottun, við uppfylltum ákvæði einhvers og einhvers. Það er alveg mögulegt að þessi staðall, sem gengur í rauninni ekki út á að votta að fyrirtæki séu með jöfn laun heldur að tryggja með einhverjum hætti að störf séu flokkuð niður þannig að hægt sé að bera þau saman, skili réttum árangri en ég held að það sé ekki alveg öruggt.

Það er líka mikill munur á valkvæðum staðli þar sem fólk er hvatt til að fara eftir honum og skyldu sem sumir gætu haft hvata til að sniðganga með því að uppfylla formlega en í rauninni vera að bulla.

Það var samt þannig að ég ákvað að treysta á að nefndin myndi skila sínu og gera vel í þessu máli, að tryggt yrði ákveðið gagnsæi og að þeir annmarkar sem eru á málinu yrðu teknir fyrir. En viti menn, eftir daginn í dag er gagnsæið farið. Við fáum ekki að sjá staðalinn. Við fáum í rauninni ekki að gera neitt. Við erum komin í þá stöðu að vera að ræða þetta þegar klukkuna vantar tíu mínútur í eitt að nóttu og fyrir tómum þingsal. Það er ekki einn einasti maður hér inni. (Gripið fram í.) Nokkrir í hliðarsal að vísu. En gagnsæið er farið. Við fáum að ræða málið í flýti og að næturlagi.

Í ljósi þess að gagnsæið er farið finnst mér að málið í heild sinni mætti bíða. Ég segi það vegna þess að þetta gagnsæi var eina tryggingin fyrir því að almenningur fengi að vita hvað stæði í þessum lögum. Það virðist vera staðan að allir nema Píratar sætti sig við að gera hlutina illa og það sé nóg að vera upplýstur um að málið sé gallað, þá sé í lagi að samþykkja það, í von um að það verði lagað í framtíðinni. Það er rugl. Lög eru ekki vín, þau verða ekki betri með aldrinum. Það er ekki þannig að hægt sé að geyma lög og vona það besta. Ekki síst þar sem við erum að tala um staðal sem getur þróast og þroskast þannig að enginn veit af því þar sem við sjáum hann ekki, vitum ekki hvað er að gerast.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur áðan leiddi samt ákveðið samtal í dag til þess að gagnsæið var tekið burt. Það samtal snerist um höfundarétt. Það samtal snerist um að Staðlaráð ætti höfundaréttinn að þessum staðli og ekki væri búið að semja við þá, ekki búið að fylgja því sem væri eðlilegt að fara eftir, að semja við Staðlaráð um birtingu á staðlinum áður en við kæmumst í þá stöðu að vera að rífast um það á deginum fyrir þinglok.

En viti menn, það kom samt ákveðin lausn upp úr pottinum. Sú lausn er svolítið áhugaverð. Þegar ég ræddi þetta á göngunum við ýmsa þingmenn kom í ljós að það eru níu önnur lög í gildi þar sem þess er krafist að farið sé eftir ákveðnum staðli. Það þýðir að á níu öðrum stöðum í lögum í dag vitum við í raun ekki hvað er í þeim. Það er frekar áhugavert og jafnvel ógnvekjandi. Sumt af þessu er ekki mjög alvarlegt. Þetta er t.d. staðall um endurskoðun og þess háttar. En við ættum að sjálfsögðu að geta séð hvaða staðlar eru í gildi.

Varðandi höfundarétt finnst mér höfundaréttur á stöðlum undarlegt fyrirbæri og það gengur heldur ekki að fara í eignaupptöku á þessu. Kannski er nægt tilefni til að ræða stöðu höfundaréttar í stóru samhengi síðar en ekki þegar klukkan er að verða eitt um nótt. En það er þannig að það eru ákveðnir staðlar sem eru mikið notaðir í heiminum, miklu meira en þessi staðall um jafnlaunavottun. Þá er ég að hugsa um staðla frá IIETF og V3c t.d. Þeir staðlar hafa alltaf verið opnir. Þeir hafa undirbyggt stór kerfi, svo stór að við notum þau öll á hverjum einasta degi. Það er til að mynda staðallinn um html sem gerir vefsíður mögulegar, t.d. staðallinn um IP sem gerir netið mögulegt. Þessir staðlar eru opnir, en þetta voru ekki fyrstu staðlarnir sem gerðu þessa hluti. Það voru aðrir staðlar sem gerðu þá hluti áður, en þeir lifðu ekki af. Þeir entust ekki, stóðust ekki tímans tönn, vegna þess að það komst enginn í þá, gat enginn lesið þá. Og sem betur fer datt engum í hug að reyna að setja þá í lög. Mér finnst alveg furðulegt að besta tillagan sem kemur frá Viðreisn og þessari ríkisstjórn um hvernig eigi að hvetja fólk til að fara eftir staðli skuli ekki vera að opna staðalinn þannig að hann sé aðgengilegur öllum heldur að skikka alla til að fara eftir staðli sem enginn getur lesið nema borga Staðlaráði 10 þús. kr.

Hvernig væri það ef allir staðlar á Íslandi væru opnir? Ef við myndum breyta lögum um Staðlaráð þannig að staðlar væru birtir opinberlega, þeir mættu enn þá hafa höfundaréttinn en á sama hátt og við gerum kröfur um að ýmis önnur gögn séu birt opinberlega? Það er t.d. ekki heimilt að ná í ræður af vefsíðu Alþingis og breyta þeim og birta, þá er hægt að segja: Staðlarnir halda enn þá höfundarétti sínum en það er krafa af hálfu ríkisins að þessir staðlar séu birtir, annars teljast þeir ekki góðir staðlar samkvæmt lögum. Þarna er komin lausn sem gæti opnað á, ekki bara að jafnlaunavottun verði eitthvað sem er valkvætt að fara eftir og jafnvel þannig að fólk sé hvatt til þess að fara eftir staðlinum á skynsaman hátt, heldur væri hægt að gera það við aðra staðla. Hvernig væri heimurinn ef við t.d. vissum hvað nákvæmlega stæði í staðli um endurskoðendur? Ég hef aldrei séð þann staðal. Ég væri forvitinn að vita hvað stendur í honum. Það er fullt af öðrum stöðlum sem við ættum algerlega að geta skoðað.

Reynslan af internetinu, af þeim stöðlum sem koma frá IETF og V3c hefur sýnt að staðlar sem eru opnir eru góðir staðlar, ekki aðeins vegna þess að þeir eru yfirleitt betur skrifaðir heldur líka vegna þess að besti staðallinn er sá sem þú ert með við höndina, sem þú sérð, sem þú skilur, sem þú veist hvernig þú átt að beita.

Ég get ekki séð að þetta mál sé nægilega vel unnið til þess að við getum verið sátt við það. Það hefur verið bent á marga vankanta í því. Við ættum að hafna þessu að sinni, einkum vegna þess að gagnsæið er farið. Við ættum gefa hæstv. jafnréttisráðherra tækifæri í sumar til að semja við Staðlaráð um birtingu á þessu. Hver veit nema ríkisstjórnin gæti farið í þá góðu vinnu að semja við Staðlaráð um birtingu allra staðla. Að gefa þeim þann tíma væri heilræði, það væri gott ráð, það væri sniðugt, vegna þess að þá verður niðurstaðan sú að við getum alla vega verið sátt, verið sannfærð um að við séum ekki að lögfesta enn einn staðalinn sem enginn mun fá að sjá nema að borga Staðlaráði 10 þús. kr. Það er kannski ekki mikill peningur fyrir fólk sem rekur 25 manna fyrirtæki en fyrir fólkið sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum eða fólk úti í bæ sem hefur áhuga á að stofna einhvern tíma 25 manna fyrirtæki er það heldur meira mál og kannski ekki eitthvað sem er í forgangi hjá þeim að kaupa.

Nú fékk ég það reyndar sem tillögu frá einum hæstv. ráðherra, án þess að ég nefni viðkomandi á nafn, að ég myndi koma hér í pontu og hreinlega lesa upp staðalinn, því að þá væri hann kominn í þingtíðindin og þar af leiðandi væri hann opinn með einhverjum ráðum. (Gripið fram í.) Er búið að því? Já? Allt í lagi. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson bendir mér á að hann sé búinn að lesa þetta. (Gripið fram í.) — Að hluta, jæja. Engu að síður eigum við ekki að fara í slíkar æfingar til að opna staðlana. Það á ekki að þurfa. Það sem á að gera í þessu tilfelli er að taka þetta mál, bíða með það fram á haust, klára samningana í sumar, laga gallana á frumvarpinu og leggja það aftur fram í haust þannig að allir geti verið sáttir. Ég held að allir geti verið sáttir. Þetta er alveg gott mál að upplagi. Þetta er kannski heldur íhaldssöm boðháttarleið frá svokölluðum frjálslyndum flokki en það er annað mál. Ég ætlaði ekki að leggja þeim línurnar í því hvernig þeir ákveða stefnu sína. En við getum sæst um þetta. Það er rétt leið. Opnum staðlana, tökum þetta mál í haust og verum ekkert að þessu núna.